Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings - 257

Málsnúmer 1807003F

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Norðurþings - 83. fundur - 21.08.2018

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 257. fundar byggðarráðs Norðurþings.
Til máls tóku undir lið 1 "Uppbygging íbúðahúsnæðis við Útgarð": Guðbjartur, Kristján, Hjálmar, Óli og Örlygur.

Minnihluti sveitarstjórnar leggur fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúar minnihlutans leggja til að Norðurþing sem eigandi að 76,2% hlut í Leigufélagi Hvamms ehf. kanni grundvöll þess að leysa út aðra eigendur og leggi Leigufélagi Hvamms ehf. 50 - 60 mkr. til lækkunar skulda og horfi til uppbyggingar á Útgarðsreitnum í samvinnu við byggingarfélag og/eða byggingarfélög sem eru ekki rekin í hagnaðarsjónarmiði. Með þessu er tryggt að sveitarfélagið þarf ekki að leggja til frekari fjármuni í búsetuúrræði fyrir eldri borgara til framtíðar.
Með þessu vænkast hagur Leigufélags Hvamms ehf. til lengri tíma og tryggir stöðugra leiguverð til íbúa við Útgarð. Jafnframt verði eldri borgurum tryggð búseta á svæðinu til framtíðar.

Tillagan er felld með atkvæðum Benónýs, Heiðbjartar, Kristjáns, Óla og Örlygs.



Meirihluti sveitarstjórnar leggur fram eftirfarandi bókun:
Það er mikið gleðiefni að tækifæri séu að myndast til að byggja upp íbúðarhúsnæði á Húsavík. Fyrirhuguð er uppbygging allt að 18 nýrra íbúða fyrir eldri aldurshópa, 55 ára og eldri, við Útgarð.
Verður sú uppbygging til þess að efla enn frekar fasteignaframboð í sveitarfélaginu og blása lífi í markaðinn. Ljóst er að skortur hefur einmitt verið á íbúðum þessarar stærðar hér á svæðinu og því ber að fagna verkefninu.
Því er hafnað að Leigufélag Hvamms sé í verri stöðu eftir að bílakjallari undir eigninni við Útgarð 4 hefur verið seldur. Skuldir félagsins munu lækka og auðveldara verður að samræma fyrirkomulag búsetuúrræða á vegum sveitarfélaganna til framtíðar, gangi markmið um samræmingu búseturéttaríbúða dvalarheimilisins og íbúðanna við Útgarð 4 eftir. Að því hefur verið stefnt og unnið hefur verið að uppfærslu á búseturéttarkerfinu sem íbúðirnar við Útgarð 4 yrðu hluti af til framtíðar.
Við sölu á bílakjallaranum og uppgreiðslu afskriftarreiknings Leigufélagsins, sem varð til við samkomulag félagsins og Íbúðalánasjóðs og sannarlega er skuld félagsins, mun efnahagsreikningurinn minnka um 27 milljónir bæði skulda- og eignamegin en því til viðbótar hækkar efnahagsreikningurinn eignamegin um 20 milljónir í sjóði. Þær 20 milljónir má nýta til frekari niðurgreiðslu lána og/eða nýta til viðhalds og auka þannig verðmæti eigna félagsins til lengri tíma litið.

Benóný Valur Jakobsson
Heiðbjört Þóra Ólafsdóttir
Kristján Þór Magnússon
Óli Halldórsson
Örlygur Hnefill Örlygsson


Minnihluti sveitarstjórnar leggur fram eftirfarandi bókun:
Þjóðin er að eldast og við lifum lengur. Hlutfall aldraðra af mannfjöldanum mun aðeins hækka. Samfélagið verður að vera tilbúið til að takast á við það verkefni. Öldruðum fjölgaði um 5% á árinum 2010 til 2015 og mun fjölga um 15% frá árinu 2015 til 2020. Svæðið við Útgarð er skipulagt fyrir eldri borgara enda í námundan við miðbæ; hvers konar þjónustu, sér í lagi heilbrigðis- og stoðþjónustu. Stefnan er mörkuð í skipulaginu og fyrir því eru ákveðnar ástæður. Sveitarfélögin hafa skyldum að gegna gagnvart þessum aldurshópi, nú og til lengri tíma litið.
Í ljósi þess hvernig staðið hefur verið að ákvörðun um sölu á bílakjallara ásamt samningi um framsal lóða við Útgarð 4 - 8 teljum við að um gjafasamning sé að ræða og meiri hagsmunum fórnað fyrir minni.
Sveitarstjórn sem ber fjárhagslega ábyrgð á rekstri sveitarfélagsins og tengdra félaga hefur ekki fjallað efnislega um framsal eignarinnar og lóða eða haft aðkomu að mótun nýrrar stefnu sem boðuð er! Jafnvel þó stjórn og aðalfundur Leigufélagsins Hvamms ehf. hafi heimild samkvæmt lögum til að selja eignina þá er aðkoma sveitarstjórnar óhjákvæmileg enda stærsti eigandi félagsins og fer með skipulagsvaldið. Ljóst má vera að málið er afar umdeilt og mætir miklum mótbyr í samfélaginu.
Í annan stað er ekki sýnt fram á að salan og framsalssamningurinn muni bæta stöðu Leigufélagas Hvamms ehf., heldur þvert á móti skaða félagið.
Með sölu á bílakjallara fást um 47 mkr. Af þeirri upphæð renna 27 mkr. til Íbúðalánasjóðs vegna samnings Leigufélags Hvamms og ÍLS um niðurfellingu skulda frá júní 2016. Eftir standa því um 20 mkr.
Bókfært virði 8 íbúða við Útgarð 4 og 16 stæða í bílakjallara, skv. ársreikningi Leigufélags Hvamms ehf. fyrir árið 2017, nemur 173.141.563.- króna. Eftir sölu á bílakjallara, þar sem 8 bílastæðanna tilheyra íbúðum við Útgarð 4 og önnur 8 bílastæði tilheyra nýbyggingu við Útgarð 6 - 8, mun virði eigna Leigufélags Hvamms ehf. minnka um 47 mkr. og skapa félaginu enn verri stöðu og dregur úr rekstarhæfni.
Rekstur félagsins er ágætur en skuldastaðan er erfið og vegur langtímalán að upphæð 212 mkr. þar þyngst. Samningur sem gerður var við Íbúðalánasjóð um niðurfellingu á um 27 mkr. og lenging í eftirstöðvum þess láns til 50 ára gefur félaginu nægilegt andrými til að vinna heildstæða áætlun um rekstur þjónustuíbúða fyrir eldri borgara, bæði fyrir Leigufélag Hvamms ehf. og DA. sf.
Við teljum skynsamlegt, í ljósi stöðunnar og til að gæta hagsmuna Leigufélags Hvamms ehf. að fallið verði frá fyrirliggjandi samningum um sölu og framsal lóða til þriðja aðila þar til heildarúttekt hafi verið gerð sem sýni áhrifin á rekstur og efnahag Leigufélagsins Hvamms ehf.
Við þennan gjafagjörning sem lýsir skammsýni meirihluta sveitarstjórnar Norðurþings vakna ótal spurningar. Hvar telur meirihlutinn skynsamlegt að byggja upp íbúðir fyrir eldri borgara og hver er stefna meirihlutans varðandi búsetuúrræði fyrir aldraða? Hefur sveitarfélagið hug á að fjárfesta í íbúðum við Útgarð 6 ? 8; ef svo er fyrir hverja eru þær hugsaðar og hvert er kostnaðarmat á hverja íbúð? En áður hafa fulltrúar meirihlutans lýst áhuga á því að sveitarfélagið taki þátt í verkefninu.
Um leið er það sérstakt fagnaðarefni að fjárfestir vilji byggja upp íbúðir á almennum markaði. Lóðir fyrir slíkt eru hugsaðar á öðrum stað en þessum sem um ræðir við Útgarð, s.s. við Grundargarð 2 eða á Skemmureit við Vallholtsveg á Húsavík. Það verður dýrkeypt að horfa ekki lengra fram í tímann en raun ber vitni og verður allur gjörningur við þessa framkvæmd á ábyrgð meirihluta sveitarstjórnar Norðurþings sem víkur frá samfélagslegum sjónarmiðum fyrir óútskýranlega skammtíma ákvörðun.

Bylgja Steingrímsdóttir
Guðbjartur Ellert Jónsson
Hjálmar Bogi Hafliðason
Hrund Ásgeirsdóttir



Fundargerðin er lögð fram.