Áætlun til þriggja ára um refaveiðar-drög til umsagnar
Málsnúmer 201404063
Vakta málsnúmerFramkvæmda- og hafnanefnd Norðurþings - 40. fundur - 23.04.2014
Fyrir framkvæmda- og hafnanefnd liggur umsagnarbeiðni frá Umhverfisstofnun vegna 3ja ára áætlunar um refaveiðar. Um er að ræða drög en undanfarin tvö ár hefur ríkið tekið þátt í kostnaði sveitarfélaga við refaveiðar. Nú verður breyting þar á, þar sem á fjárlögum hefur verið varið 30 milljónum króna á ári í verkefnið til næstu þriggja ára. Forsenda þess er að gerðir verði samninga við sveitafélögin um endurgreiðslur sem munu nema allt að þriðjungi kostnaðar.Stofnunin hefur útbúið drög að "Áætlun til þriggja ára um refaveiðar". Markmiðið með áætluninni til næstu þriggja ára er að tryggja upplýsingaöflun og samráð við helstu hagsmunaaðila í þeim tilgangi að byggja upp enn betri grunn fyrir ákvörðunartöku um veiðar á ref til að lágmarka tjón af hálfu refsins í náinni framtíð. Markmið áætlunarinnar er að þremur árum liðnum verði komnar betri upplýsingar um stofnstærð refsins um land allt og búið að afla meiri upplýsinga um tjón sem hann veldur. Drögin hafa einnig verið til umfjöllunar á samráðsvettvangi með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Náttúrufræðistofnun Íslands.Umhverfisstonfun hefur sent drögin á almenn netföng allra sveitarfélaga, og óska eftir umsögn og athugasemdum sem berist stofnuninni eigi síðar en 30. apríl n.k. Framkvæmda- og hafnanefnd hefur ekki fengið drögin send og því er framkvæmda- og hafnafulltrúa falið að kalla eftir þeim og jafnframt óska eftir fresti til að veita umbeðna umsögn enda málið mikilvægt fyrir sveitarfélagið þar sem það er bæði stórt og víðfemt.
Framkvæmda- og hafnanefnd Norðurþings - 41. fundur - 14.05.2014
Fyrir framkvæmda- og hafnanefnd liggur til umfjöllunar áætlun til þriggja ára um refaveiðar. Málið var áður á dagskrá á 40. fundi nefndarinnar. Meðfylgjandi gögn vantaði í málið en hafa þau nú borist.Eins og fram kemur í meðfylgjandi drögum er kostnaður sveitarfélaga misjafn og að sama skapi endurgreiðslur frá ríkinu. Í meðfylgjandi drögum er lagt til aukin ábyrgð, vinna og frágangur gagna sveitarfélaga vegna refaveiða án þess að fullkomlega sé tryggt að greiðsluþátttaka ríkisins fylgi í sama hlutfalli. Áætlunin ber með sér auknar áherslur og faglegri umsjón með veiðum þar sem miklum upplýsingum um veiðarnar, veiðistaði og felld dýr er safnað saman í gagnagrunn. Ekki eru gerðar athugasemdir við betri nýtingu fjármagns sem til málaflokksins fer en þó ber að geta þess að það skiptir máli hver ber þungan af kostnaðinum.Framkvæmda- og hafnanefnd leggur til að ríkið annist refa- og minkaeyðingu á landinu og feli eftirlit og umsjón með því Náttúrustofum á viðkomandi landsvæðum.