Fara í efni

Fyrirspurn til sveitarstjóra varðandi lagningu hitaveitu í Kelduhverfi

Málsnúmer 201702129

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Norðurþings - 65. fundur - 21.02.2017

Fyrir sveitarstjórn liggur fyrirspurn frá Gunnlaugi Stefánssyni til sveitarstjóra varðandi lagningu hitaveitu í Kelduhverfi.
Sveitarstjóri svaraði framkomnum spurningum Gunnlaugs Stefánssonar með greinargerð er fer hér á eftir:


"65. sveitarstjónarfundur Norðurþings, 21. Febrúar 2017
Málsnúmer: 201702129

Svör við fyrirspurnum Gunnlaugs Stefánssonar til sveitarstjóra um málefni OH er tengjast uppbyggingu hitaveitu í Kelduhverfi og ljósleiðarlagningu samhliða því verkefni



Undirritaður óskar eftir því að sveitarstjóri afli svara við eftirfarandi spurningum og leggi fyrir sveitarstjórnarfund þriðjudaginn 21.02.2017

Orkuveita Húsavíkur ohf. hefur verið í framkvæmdum við lagningu Hitaveitu í Kelduhverfi. Í ljósi þess óska ég eftir að skrifleg svör við eftirfarandi spurningum verði lögð fram á sveitarstjórnarfundi þann 21. febrúar n.k.

Nú liggur fyrir að framkvæmdir við fyrirhugaða hitaveitu í Kelduhverfi hefur verið stöðvuð af stjórn OH. Það er gert eftir ráðleggingu lögmanns félagsins vegna deilu um eignarrétt á landi þar sem borholan er sem fyrirhugað er að nýta.

1. Er eitthvað vitað um það hvenær gæti verið búið að leysa þennan ágreining með þeim hætti að framkvæmdir geti hafist á ný?
Svar: Fresturinn til þess að svara bréfi Landgræðslunnar um athugasemdir er varðar fyrirhugaða málshöfðun og ósk um afstöðu eigenda jarða er liggja að Ássandi í Kelduhverfi rennur út 6. mars. Norðurþing er þar landeigandi, þ.e. að Ytri-bakka (Þórseyri). Það land sem nefnt er Ássandur hefur Landgræðsla ríksins haft á sinni eignaskrá í fjölmarga áratugi. Deiluefnin eru í grunninn tvö í meginatriðum. 1. Hvort núverandi eigendur að jörðum sem gáfu yfirlýsingu um afsal landsins 1939 geri ágreining um að Landgræslan sé eigandi að umræddu landi og þá hvort ágreiningur sé um afmörkun landsins 2. Hvort veiðiréttur fylgi landareigninni.

Um miðjan mars ætti að liggja fyrir hvort ástæða sé til þess að fara með málið fyrir dóm til þess að skera úr um það hver sé réttmætur eigandi landsins. Fari svo að málið fari fyrir dóm, þarf OH að klára með Landgræðslunni þau samningsdrög sem þegar voru klár fyrir nokkru síðan, en Landgræðslan vildi ekki skrifa undir fyrr en fyrir liggur hver sé í reynd eigandi landsins. Að því loknu þarf OH einnig að fá alla aðra aðila málsins, þ.e. eigendur annara jarða sem liggja að Ássandi, til þess að undirrita sama samning svo það sé alveg klárt að auðlindagjaldið vegna borholunnar sem stefnt er að því að nýta við uppbyggingu hitaveitunnar breytist ekki, hvernig sem dómsmálið fer. OH ehf hefur nú þegar sent inn til Orkustofnunar umsókn um nýtingarleyfi á holunni (BA-04) sem staðsett er á umræddu landi.

Fari málið hins vegar þannig að enginn geri athugasemd við eignarhald Landgræðslunnar á landinu, er engin ástæða til þess að fara með málið fyrir dóm og því hægt að klára samninginn við Landgræðsluna einhliða. Þá á væntanlega eftir að semja við hlutaðeigandi landeigendur um að fá að fara með lagnir yfir þeirra land og í beinu framhaldi að bjóða verkið út. Varðandi tímasetningar, þá eru þær eðli málsins samkvæmt frekar óljósar á þessu stigi.



2. Fyrir hversu háa upphæð er nú þegar búið að fjárfesta í verkefninu?

Svar: Búið er að fjárfesta í verkefninu samtals 27 mkr.

a) Í hverju liggur sú fjárfesting og hvernig skiptist hún?
Svar: Fjárfestingin liggur í þeim lögnum og ljósleiðara sem plægt var niður með háspennustreng Rarik, milli Laufáss og Grásíðu árið 2015. Kostnaðar skiptist þannig:
Efni 17,8 mkr.
Hönnun 1,5 mkr.
Aðk.vinna 6 mkr.
Rarik 1,2 mkr.
Efni í ljósleiðara 765 þús.

3. Hver er áætluð heildarfjárfesting verkefnisins?
Svar: Stofnkostnaður við framkvæmdina (kostur 2 í meðf. skjali Hitv_Kelduhverfi_júní 2015) er áætlaður um 98 mkr, en á móti þeim kostnaði koma áætlaðar um 60 mkr í formi eingreiðslna, heimlagnagjalda og framlags Orkuseturs. Fjárfestingin er því metin á um 39 mkr. Í þessum útreikningum er þó væntanlega gert ráð fyrir 12 ára endurgreiðslu frá ríkinu, en það er búið að breyta því í 16 ár í dag. EFLA vinnur að uppfærslu á þessum útreikningum.

Skv. fjárhagsáætlun eru áætlaðar 30 milljónir til verksins á árinu 2017 og aðrar 30 milljónir 2018. Allt bendir til þess, í ljósi óvissunnar um eignarhald landsins hvar borholan stendur sem og fyrirliggjandi upplýsinga um mikla viðhaldþörf á kerfum veitunnar m.a. í Aðaldal og Reykjahverfi og ekki var gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun 2017, verður líklegra og líklegra að áframhald verkefnisins færist yfir á 2018 og 2019.

4. Hvað er áætlað að margir notendur verði tengdir við væntanlega hitaveitu?
Svar: Það er ekki hægt að segja með vissu hversu margir munu tengjast veitukerfinu, en til þess að hafa einhverja mynd af því var Þekkingarnet Þingeyinga fengið árið 2014 til þess að gera svokallaða áhugakönnun þess efnis meðal íbúa Kelduhverfis sem eru innan fyrirhugaðs veitusvæðis (kostur 2). Sú könnun leiddi í ljós að meirihluti húseigenda lýsti áhuga á að tengjast hitaveitunni. Svör bárust frá 37 bæjum, 28 höfðu áhuga, 8 höfðu ekki áhuga en 1 var óákveðinn. Arðbærisútreikningar gera ráð fyrir því að allir bæir taki þátt í verkefninu og fyrir liggur að áður en framkvæmdir geti hafist verði óskað eftir því við íbúa á svæðinu að svara til um það, með skuldbindandi hætti, hvort viðkomandi fasteignir muni taka hitaveituna. Þetta verði gert eftir kynningarfund með íbúum sem áætlað er að fari fram um leið og óvissu hefur verið eytt um framgang verkefnisins hvað eignarhald á Ássandi varðar.



5. Hversu margir húseigendur hafa nú þegar skuldbundið sig til að tengjast væntanlegri hitaveitu?
Svar: Það liggja engar skuldbindingar fyrir um að tengjast hitaveitunni.

6. Hverjar eru áætlaðar árstekjur hitaveitunni?
Svar: Árlegar tekjur í formi vatnssölu og mælagjalda er í kringum 6 milljónir króna m.v. að öll húsin á svæðinu taki inn hitaveitu.

7. Hefur verið fjárfest í lagningu ljósleiðarar samhliða hitaveitufjárfestingunni?
Svar: Það var plægður niður ljósleiðari með þeirri lögn sem þegar er komin í jörð og reiknað er með að það verði gert í framhaldinu einnig (ef af verður).

a) Hversu mikil er sú fjárfesting orðin?
Svar: 765 þús.

b) Hefur verið sótt um styrki til þeirra fjárfestingar?
Svar: Norðurþing sótti um styrk í Íslands ljóstengt 6. apríl 2016. Sveitarfélagið hefur fengið úthlutað 2,2 mkr, af 5,5 mkr styrk. Restin greiðist eftir því sem verkinu miðar áfram. Þegar verkið er hálfnað þá verða önnur 40% greidd og svo restin við lok framkvæmda.
c) Hvernig hugsar OH sér að nýta þá fjárfestingu?
Svar: Það er stefna OH að leggja ljósleiðara með öllum lögnum veitunnar sem fara í jörð, en það er fyrst og fremst hugsað til þess að tengjast eftirlitskerfum veitunnar.

d) Ætlar OH að byggja upp og reka ljósleiðarakerfi í Kelduhverfi?
Svar: Orkuveita Húsavíkur er ekki með fjarskiptaleyfi og má því strangt til tekið ekki reka slíkt kerfi. OH hefur heldur ekki yfir að ráða þeirri sérfræðiþekkingu sem þarf til þess að viðhalda slíku kerfi og verður því öll þjónusta varðandi það að vera aðkeypt eða úthýst. Með öðrum orðum, OH hefur engan hug á því að reka ljósleiðarakerfi í Kelduhverfi.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri"




Til máls tóku: Gunnlaugur, Óli og Erna.