Fara í efni

Móttaka flóttamanna í Norðurþingi 2017

Málsnúmer 201708032

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 223. fundur - 17.08.2017

Óli Halldórsson og Sif Jóhannesdóttir leggja fram tillögu fyrir byggðarráð um að Norðurþing ítreki boð um að sveitarfélagið geti tekið við flóttafólki í sveitarfélaginu.
Á liðnu ári var Norðurþing meðal þeirra sveitarfélaga sem bauðst með formlegum hætti til að taka á móti flóttafólki í sveitarfélaginu. Undirrituð telja ekki nóg að gert á Íslandi í málefnum flóttamanna og leggja til að Norðurþing ítreki þessa beiðni við stjórnvöld. Bent skal á að í Norðurþingi eru afar góðar aðstæður til að taka á móti nýju fólki og allir velkomnir. Mikil atvinna er í boði á svæðinu og félagslegir innviðir sterkir. Í nálægðinni í minni samfélögum getur að mörgu leyti falist mikill styrkur til að takast á við verkefni eins og þetta. Móttaka nýrra íbúa, þ.m.t. flóttamanna frá öðrum löndum, byggir ekki eingöngu á kerfislegum aðgerðum heldur persónulegum og samfélagslegum þáttum. Töluverð reynsla er til staðar í sveitarfélaginu Norðurþingi, t.d. í grunnskólum og leikskólum, við mótttöku og aðlögun barna frá öðrum menningarsvæðum og með annað móðurmál en íslensku. Það er mat undirritaðra að auk þess að koma fólki til aðstoðar sem þarf á því að halda, getur hlotist af slíku lærdómur og jákvæð áhrif fyrir samfélagið.
Undirrituð leggja til við byggðarráð að boð Norðurþings verði þegar í stað ítrekað með bréflegum hætti. Ef viðbrögð verða jákvæð verði málið undirbúið komandi haust, þ.m.t. húsnæðisúrræði og aðrir nauðsynlegir þættir.

Byggðarráð tekur undir bókunina.