Fjárframlög til heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi 2018
Málsnúmer 201712129
Vakta málsnúmerSveitarstjórn Norðurþings - 76. fundur - 19.12.2017
Í frumvarpi til fjárlaga 2018 er ráðgert að auka fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins almennt. Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands er þrátt fyrir þetta gerð hagræðingarkrafa á stofnunina.
Óli leggur fram eftirfarandi bókun:
Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstök áhersla lögð á heilbrigðismál og að allir landsmenn óháð búsetu eigi að njóta góðrar þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Þessu fagnar sveitarstjórn Norðurþings en bendir á að það skýtur skökku við að hagræðingarkrafa skuli vera gerð á Heilbrigðisstofnun Norðurlands í fjárlagafrumvarpi sem lagt var fyrir til fyrstu umræðu. Gera verður leiðréttingu þegar í stað á fjárlagafrumvarpinu í meðförum þingsins.
Þannig verði vikið alfarið frá fyrrgreindri hagræðingarkröfu og fjárheimilidir auknar með áþekkum hætti og ráðgert er fyrir höfuðborgarsvæðið. Þjónustuþörfin hefur aukist verulega bæði vegna aðstæðna á starfssvæði heilbrigðisstofnunarinnar, svo sem fjölgun íbúa og breyttri aldurssamsetningu, en einnig vegna þjónustu við sívaxandi fjölda ferðamanna. Þá vill sveitarstjórn einnig benda á nauðsyn þess að Sjúkrahúsið á Akureyri verð eflt til þjónustu við íbúa með sambærilegum hætti og Landsspítalinn, enda gegnir það afar mikilvægu hlutverki í heilbrigðisþjónustu íbúa á norðanverðu Íslandi.
Sveitarstjórn Norðurþings skorar á heilbrigðisráðherra og alþingismenn að bregðast við og sjá til þess að á Norðurlandi verði innviðir styrktir og heilbrigðisþjónusta efld með sama hætti og annars staðar.
Bókunin er samþykkt samhljóða.