Óleyfisframkvæmdir við Hafnarstétt 13
Málsnúmer 201808057
Vakta málsnúmerSkipulags- og framkvæmdaráð - 6. fundur - 28.08.2018
Við vettvangsskoðun skipulags- og byggingarfulltrúa föstudaginn 17. ágúst s.l. kom í ljós að hlaðnir veggir umhverfis lóðina að Hafnarstétt 13 ná tugi centímetra út fyrir heimiluð mörk á tvo vegu, norður og austur fyrir lóðina. Heimiluð mörk voru ákvörðuð á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Norðurþings 21. nóvember 2017 og ítrekuð á fundi sömu nefndar 13. desember 2017. Loks var fyrri afstaða staðfest við bókun skipulags- og framkvæmdaráðs á fundi 3. júlí 2018. Skipulags- og byggingarfulltrúi fór fram á tafarlausa stöðvun framkvæmda við verkið á grundvelli 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Síðar kom í ljós að einnig er hafin vinna við vegg vestan lóðarmarka án heimildar. Stefáni Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Gentle Giants ? Hvalaferða ehf, var gefinn kostur á að tjá sig um framkvæmdirnar sem hann hefur m.a. gert með tölvupóstum til skipulags- og byggingarfulltrúa dags. 18. ágúst og 22. ágúst s.l. Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti málavexti.
Fulltrúar minnihluta í skipulags- og framkvæmdaráði harma að farið var út fyrir heimilað framkvæmdasvæði en hafa að vel ígrunduðu máli ákveðið að leggjast gegn því að frágangi á upphleðsluveggjum við austur- og norðurhlið Flókahúss sé hnikað frá núverandi staðsetningu. Enda þótt það sé ekki almennt vel séð að farið sé út fyrir heimiluð lóðamörk í byggingaframkvæmdum þá hafi komið fram skýr rök í málinu hví umræddir veggir gátu ekki verið reistir innan þeirra marka sem kveðið var á um. Ekki er um aðgangshindranir að ræða umfram það sem heimild kvað á um og því mat undirritaðra að ekki sé ástæða til þess að eyða meiri tíma í umrætt mál.
Heiðar Hrafn Halldórsson
Hjálmar Bogi Hafliðason
Kristján Friðrik Sigurðsson
Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráðs harmar að framkvæmdir hafi farið út fyrir þær heimildir sem gefnar hafa verið og koma skýrlega fram í ítrekuðum bókunum hjá skipulags- og umhverfisnefnd og síðar skipulags- og framkvæmdaráði Norðurþings. Ráðið telur brotin þess eðlis að fullt tilefni sé til þess að skipulags- og byggingarfulltrúi krefjist þess að óleyfisframkvæmdirnar verði fjarlægðar með vísan til 55. gr. og 56. gr. laga um mannvirki.
Kolbrún Ada Gunnarsdóttir
Silja Jóhannesdóttir
Örlygur Hnefill Örlygsson