Fara í efni

Skerðing á kjörum starfsmanna Grænuvalla - yfirlýsing starfsmanna

Málsnúmer 202010085

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 342. fundur - 15.10.2020

Borist hefur bréf frá stéttarfélaginu Framsýn ásamt yfirlýsingu starfsmanna leikskólans Grænuvalla þar sem fjallað er um skerðingu á kjörum starfsmanna Grænuvalla og þess krafist að þær verði afturkallaðar.
Benóný, Hafrún, Helena og Kolbrún Ada leggja fram eftirfarandi bókun:
Norðurþing er eina sveitarfélagið, svo vitað sé til, sem hefur enn ekki sagt upp neysluhlésgreiðslum. Um er að ræða 11 fasta yfirvinnutímum sem greiddir hafa verið samhliða föstum mánaðarlegum launagreiðslum. Heimild til uppsagnar byggir á 11. forsenduákvæði í kjarasamningi Félags Leikskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga (gildistími 1. júní 2014 - 31. maí 2015) sem Norðurþing yfirfærði einnig á félagsmenn annarra stéttarfélaga sem starfa á Grænuvöllum. Undirrituð telja því ekki að um sé að ræða fordæmalausa ákvörðun um breytingar á sérkjörum starfsmanna í leikskólum.
Fyrir ákvörðuninni eru nokkrar forsendur sem verður að horfa til, bæði vegna þess að ekki er um kjarasamningsbundið ákvæði að ræða og sömuleiðis er aðeins hluti leikskólastarfsfólks í Norðurþingi að njóta þessara sérkjara.
Neysluhlésgreiðslur voru á sínum tíma greiddar vegna vinnu starfsmanna á matartíma. Starfsmenn hafa aftur á móti undanfarin ár, þrátt fyrir greiðslurnar, fengið sitt neysluhlé. Staðreyndin er sú að greiðslurnar eru óútskýrðar og því sem slíkar viðbótarkjör við umsamin kjör sem kjarasamningar kveða á um.
Eins og fjallað hefur verið um í byggðarráði Norðurþings, á fundi ráðsins þann 17. september sl., var lagt fram minnisblað um þær aðgerðir til hagræðinga sem unnið er að eða ráðist hefur verið í og á hvaða grunni þær aðgerðir eru. Þar var eftirfarandi kynnt:
Byggðarráð hefur þegar falið sveitarstjóra að vinna til samræmis við tillögur í minnisblaði frá 17. september sl., með það fyrir augum að ná hagræðingu á ýmsum sviðum rekstrar Norðurþings. Um er að ræða aðgerðir á eftirfarandi grunni.
- Misræmi í greiðslum til starfsmanna í tengslum við launagreiningu jafnlaunavottunar leiðréttar þar sem við á.
- Nýráðningar unnar eftir verklagsreglu jafnlaunavottunar og launaröðun fylgi kjarasamningi.
- Bakvaktafyrirkomulag starfsmanna samræmt á milli deilda og fyrirtækja sveitarfélagsins.
- Óútskýrðum föstum greiðslum vegna yfirvinnu sagt upp ef engin tilfallandi yfirvinna er innt af hendi á móti greiðslunum.
- Ekki verði greitt fyrir unna yfirvinnu þar sem um fastar yfirvinnugreiðslur er að ræða. Fari raunverulega unnin yfirvinna umfram greidda tíma er möguleiki á endurskoðun á ársgrundvelli.
- Sagt verður upp föstum aksturgreiðslum/akstursstyrkjum þar sem við á og eingöngu verður greiddur akstur samkvæmt akstursdagbók.
- Bakvaktir verða ekki hluti af starfi æðstu stjórnenda heldur er þeim sinnt af almennum starfsmönnum.

Sem ákveðið mótvægi við þær breytingar sem uppsögn þessara kjara starfsmanna Grænuvalla felur í sér hvetja undirrituð sveitarstjóra til þess að í viðræðum sveitarfélagsins og starfsmanna Grænuvalla um styttingu vinnuvikunnar verði horft til möguleikans á auknu starfshlutfalli starfsmanna en með óbreyttum vinnutíma m.v. núverandi vinnutilhögun.

Hjálmar Bogi leggur fram eftirfarandi bókun:
Á fundi bæjarráðs Húsavíkurkaupstaðar þann 23. mars árið 2000 var eftirfarandi samþykkt: Starfsfólk á leikskólum Húsavíkur sem matast inn á deildum með börnum í hádeginu fái greiddar 11 klst. í yfirvinnu á mánuði miðað við að matast sé með börnum alla virka daga. Málið á sér lengri sögu en það.
Það eru liðin 20 ár og sannarlega ástæða til að endurskoða þessa samþykkt enda gildir hún aðeins fyrir starfsfólk leikskóla á Húsavík og nær ekki til annarra starfa í sambærilegum störfum. Þessu ákvæði var komið á í mörgum sveitarfélögum enda starfsfólk að selja eigin neysluhlé til að sinna þjónustu við nemendur eða einhvers konar kaup kaups. Víðast hvar hefur þetta ákvæði verið afnumið með einhverjum hætti og á ákveðnum tíma. Starfsfólk Grænuvalla hafa fengið þessar greiðslur óháð starfshlutfalli.
Greiðslurnar eru viðbót við kjarasamningsbundnar greiðslur og því um sérkjör að ræða.
Það kreppir að í rekstri sveitarfélagsins og víða í samfélaginu. Í lok septembermánaðar var starfsfólki Grænuvalla tilkynnt um uppsögn á neysluhlésgreiðslunum sem felur í sér skerðingu á kjörum og stór biti að kyngja og því mikilvægt að vanda til verka þegar ákvæðið er endurskoðað. Það hefur ekki tekist nægilega vel eins og sjá má í yfirlýsingu starfsfólks Grænuvalla. Það er ástæða til að sveitarfélagið fundi aftur með starfsfólki og stéttarfélögum sem um ræðir til að vinna úr málinu.
Það hefði verið meiri reisn yfir því að byrja að endurskoða laun kjörinna fulltrúa, launin okkar. Í stað þess að byrja m.a. á lægst launaðasta starfsfólkinu þegar rýnt er í rekstur sveitarfélagsins.


Byggðarráð felur sveitarstjóra að bregðast við beiðni starfsmanna og stéttarfélaga þeirra um fund.
Kristján Þór Magnússon vék af fundi klukkan 11:30.