Fara í efni

Tillaga um breytta forgangsröðun fjárfestinga - endurskoðun 3ja ára fjárhagsáætlunar.

Málsnúmer 202203005

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 389. fundur - 03.03.2022

Aldey Unnar Traustadóttir leggur fram tillögu um að Norðurþing dragi sig út úr útboði í samstarfi við Ríkiskaup um kaup á nýrri slökkvibifreið og eftirláti nýrri sveitarstjórn, sem tekur við að örfáum mánuðum liðnum, að fjárfesta í stærri fjárfestingum fyrir komandi ár í eigin fjárhagsáætlun.
Byggðarráð frestar ákvörðun um tillöguna til næsta fundar þegar frekari gögn liggja fyrir vegna útboðsins.

Byggðarráð Norðurþings - 391. fundur - 17.03.2022

Á 389. fundi byggðarráðs þann 03.03.2022, var frestað umræðu um neðangreinda tillögu þar til nánari gögn vegna útboðsins liggja fyrir.
Aldey Unnar Traustadóttir leggur fram tillögu um að Norðurþing dragi sig út úr útboði í samstarfi við Ríkiskaup um kaup á nýrri slökkvibifreið og eftirláti nýrri sveitarstjórn, sem tekur við að örfáum mánuðum liðnum, að fjárfesta í stærri fjárfestingum fyrir komandi ár í eigin fjárhagsáætlun.
Benóný og Helena hafna tillögunni og Bergur Elías situr hjá.

Bergur Elías óskar bókað:
Hér er um stóra fjárhagslega ákvörðun að ræða sem auðveldlega gæti farið yfir 100 m.kr. Tel mikilvægt að vanda vel til verka og að afstaða allra kjörinna fulltrúa liggi fyrir áður en endanlega ákvörðun verður staðfest.

Benóný óskar bókað:
Undirritaður hafnar tillögu V lista þrátt fyrir að niðurstaða útboðsins hafi verið yfir kostnaðaráætlun vegna þess að ég tel verulega ólíklegt að hagstæðari kjör verði í boði á næstu árum og ljóst að endurnýjunar er þörf mjög fljótlega. Það er vissulega svo að fjármagn er af skornum skammti og að mörgu að hyggja, öryggistæki eins og slökkvibifreið er nauðsynlegt að sé í lagi öryggis íbúa og fyrirtækja vegna og því tel ég rétt að ráðast í þessi kaup á þessu stigi þó að mörg önnur verkefni væru líka nauðsynleg.

Aldey óskar bókað:
Tillaga undirritaðrar fyrir hönd V lista og óháðra felur í sér að draga Norðurþing út úr slökkvibílaútboði og víkja frá áformum um 75 m.kr. fjárútlát. Nú liggur fyrir að tilboð sem barst var meira að segja langt umfram þessa áætlun, eða upp á 92 m.kr.
Undirrituð lýsir megnri óánægju með að meirihluti byggðaráðs ætli þrátt fyrir þetta að halda málinu til streitu og ítrekar fyrri tillögur og bókanir í þá veru að tímabært sé að sinna frekar brýnni fjárfestingu í þágu barna og fjölskyldna. Sú fjárþörf hefur safnast upp, m.a. í skólum Norðurþings, ekki síst fyrir það að 300 m.kr. slökkviliðsbygging á Húsavík á liðnum árum hefur skert takmarkaða fjárfestingargetu til annarra hluta. Meðal brýnna fjárfestinga af því tagi er endurnýjun úrelts tölvubúnaðar í stofur og bókasöfn skóla Norðurþings, hljóðkerfis í sal Borgarhólsskóla og húsgagna og aðbúnaðs fyrir kennara og starfsfólk. Þá hefur úrbótum á lóð Borgarhólsskóla ekki verið sinnt, þrátt fyrir áskoranir þar um frá nemendum Borgarhólsskóla.
Undirrituð vísar því allri ábyrgð á þessari afgreiðslu og forgangsröðun frá sér.


Hafrún óskar bókað:
Að hún sé samþykk niðurstöðu meirihluta byggðarráðs.