Beiðni um umsögn vegna eldisstöðvar á Röndinni á Kópaskeri
Málsnúmer 202203119
Vakta málsnúmerSkipulags- og framkvæmdaráð - 123. fundur - 05.04.2022
Skipulagsstofnun óskar umsagnar Norðurþings skv. 16. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar aukningar fiskeldis á Röndinni á Kópaskeri. Fyrir liggur umhverfismatsskýrsla unnin af Eflu hf verkfræðistofu dags. 1. mars 2022. Skv. skýrslunni er áformað að framleiða allt um 8.800 tonn af laxaseiðum á ári á lóð fyrirtækisins. Framleiðslan fari fram á fjórum kerjapöllum til samræmis við ákvæði fyrirliggjandi deiliskipulags svæðisins. Niðurstaða umhverfismatsskýrslu er að framkvæmdin muni hafa talsverð neikvæð áhrif á tvo umhverfisþætti sem metnir voru í umhverfismatinu. Annarsvegar á grunnvatn og vatnafar en hinsvegar á fuglalíf. Helstu mótvægisaðgerðir sem horft er til er sláttur eða beit á lúpínu til að bæta kjörlendi varpfugla og dreifing á vatnstöku til að draga úr staðbundnu álagi. Áhrif framkvæmdar á fornleifar, náttúruverndarsvæði, lyktarmengun, útivist og upplifun og sjónræn áhrif eru talin óveruleg.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings telur að framkvæmdinni, umhverfi hennar, umhverfisáhrifum og mótvægisaðgerðum sé lýst á fullnægjandi hátt í greinargerð. Uppbyggingaráform eru í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins sem sveitarstjórn hefur samþykkt. Uppbygging svæðisins er þegar hafin með uppbyggingu tveggja húsa auk annarra innviða lóðarinnar. Fiskeldi er þegar hafið í einu húsi. Frekari uppbygging er háð framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi af hálfu sveitarfélagsins.