Fara í efni

Tilkynning til íbúa vegna kvikmyndaverkefnis

Næstu daga fáum við Húsvíkingar það einstaka verkefni að taka á móti kvikmyndagerðarfólki frá Netflix, sem taka mun upp atriði í nýjustu kvikmynd stórleikarans og handritshöfundarins Will Ferrell. Eins og greint hefur verið frá mun myndin fjalla um Eurovision söngvakeppnina og mun bærinn okkar vera að hluta til sögusvið myndarinnar og sem slíkur leika stórt hlutverk í myndinni.

Um einstakan atburð er að ræða sem allar líkur eru á að hafi mikil og jákvæð áhrif á ferðamennsku inn á svæðið til næstu ára ef vel tekst til. Því er mikið í húfi og mikilvægt að við íbúar stöndum saman og látum þetta verkefni ganga eins vel og nokkur kostur er.

Fjöldi íbúa úr samfélaginu kemur að verkefninu með einum eða öðrum þætti. Sem dæmi má nefna að  íbúar hafa leigt eignir sínar tímabundið til verkefnisins, húsvískir aukaleikarar standa vaktina í nokkrum senum og enn aðrir aðstoða með ýmiskonar verkefni þessa daga sem tökurnar standa yfir.

Spennan fyrir upptöku kvikmyndarinnar á Húsavík hefur magnast undanfarnar vikur og er það mjög skiljanlegt að fólk sé bæði spennt og forvitið um myndina. Allir sem að myndinni koma eru mjög þakklátir fyrir það hve jákvæðum augum íbúar á Húsavík hafa litið þetta verkefni.

Þegar stór kvikmyndaverkefni eins og þessi eru unnin er sömuleiðis nauðsynlegt að allir sýni þeim mikilvægu leikreglum sem gilda á og við upptökustaðina skilning.  Væntingar kvikmyndafyrirtækisins, leikara og aðstandenda myndarinnar eru miklar. Fyrir hönd sveitarfélagsins óska ég eftir því að við íbúar sýnum okkar góðu gestum að við séum traustsins verð og virðum trúnað við starfsfólk og leikara myndarinnar og að við sýnum að við getum tekið að okkur fleiri svona verkefni án þess að meginreglurnar sem unnið er eftir í þessum geira sé virtar að vettugi. Þær eru í grunninn eftirfarandi:

  • Að alls engar myndir af kvikmyndatökustöðunum, leikurum og öðru á tökustað verði teknar og birtar á samfélagsmiðlum.
  • Að engum drónum verði flogið yfir/nálægt kvikmyndatökustaði á meðan upptökum stendur.
  • Að íbúar sýni því skilning og umburðarlyndi að komið gæti til tímabundinna lokana á götum í bænum á meðan upptökum stendur.

Um 250 manns munu koma til Húsavíkur við vinnslu myndarinnar og munu upptökur vara frá föstudegi 11. október til mánudagsins 14. október n.k. og ljóst að íbúar munu verða varir við ýmiskonar umstang víða um bæinn á þessum tíma.

Að lokum óska ég þess að við njótum þess að fá þetta skemmtilega verkefni til Húsavíkur og hjálpumst öll að við að gera þetta að frábærum atburði í sögu bæjarins. Tökum vel á móti aðstandendum kvikmyndarinnar, virðum trúnað og höldum alvöru Eurovision partý í vor!

Fyrir hönd Norðurþings,

 

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri