Covid-pistill sveitarstjóra #2
Það var unnið samkvæmt áætlunum sveitarfélagsins á öllum vígstöðvum í dag og gekk skólastarf vel fyrir sig þótt hertar reglur er snúa að samkomubanninu sé vandasamara að fylgja eftir. Allt hefst þetta þó eins og kom fram á fundi með stjórnendum að skóla loknum í dag. Unnið hefur verið að skipulagi er snýr að heimild barna á forgangslistum að njóta þjónustu, komi til lokana eða enn frekari skerðinga á skólahaldi. Það veitir okkur þónokkurn byr í seglinn að heyra frá sóttvarnarlækni í dag hversu fá börn á Íslandi eru greind með veiruna og skipulagið okkar sem við höfum lagt upp með ætti að gera það að verkum að mun færri munu smitast komi upp tilfelli í þeim fámennum hópum sem allt skólastarf miðar nú við. Það er ekkert annað að gera en halda ótrauð áfram á þessari leið með stíft utanumhald allrar þjónustu, með handþvottinn að vopni, sprittið sem bónus og fjarlægðarmörkin á hreinu.
Staðan hjá okkur hefur sömuleiðis víðtæk áhrif innan félagsþjónustunnar eins og allir vita. Ég vil koma á framfæri miklum og góðum þökkum til allra skjólstæðinga félagsþjónustunnar sem hafa tekið þessu ástandi af miklu æðruleysi og sýnt okkar starfsfólki skilning og stuðning. Félagsmálastjóri og hennar flotta lið eru að vinna frábæra vinnu við erfiðar aðstæður við að halda utan um málin hjá okkur og sinna fólki eftir bestu getu og heimildum hverju sinni.
Sveitarstjórn kom saman á fyrsta fjarfundi í sögu Norðurþings nú kl 15 í dag, þar sem aðeins eitt mál var á dagskrá. Ákveðið var að heimila fjarfundi sveitarstjórnar og allra fastanefnda Norðurþings fram til 18. júlí, eða eins lengi og ákvörðun ráðherra gildir. Sveitarstjórn undirbýr viðbrögð við fjárhagslegri stöðu fyrirtækja og einstaklinga sem nánar verða rædd á næstu fastanefndarfundum í vikunni.
Nú síðdegis komu leiðbeiningar varðandi aðgerðir fyrir heimilin frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem koma í kjölfar hugmynda um aðgerðir til handa atvinnulífinu og birt voru í síðustu viku. Aðgerðarhópur Norðurþings um fjárhagsleg viðbrögð vinnur í framhaldinu með þessar tillögur í samstarfi við sveitarstjórn og leggur upp sértæk viðbrögð okkar í Norðurþingi. Ég vil koma á framfæri þakklæti fyrir þann samhug og öfluga samstarfs sem ríkir innan sveitarstjórnar Norðurþings um það er snýr að viðbrögðum okkar við faraldrinum.
Fram kemur í minnisblaði framkvæmdastjóra Sambandsins sem vitnað er til hér að ofan að mælst sé til þess að sveitarfélögin taki afstöðu til eftirfarandi valkosta, eftir því sem við á í hverju sveitarfélagi:
- Veittur verði allt að 100% afsláttur af greiðsluþátttöku foreldra í leikskólum, frístundaheimilum og annarri dvöl barna í starfi á vegum sveitarfélaga, taki foreldrar ákvörðun um að nýta ekki pláss.
- Þegar tímabundnar aðstæður, svo sem sóttkví eða grunur um smit, valda því að íbúar (foreldrar o.fl.) geta einungis nýtt að hluta þá grunnþjónustu sem er í boði, nái greiðsluhlutdeild einungis til þeirrar þjónustu sem raunverulega er nýtt.
- Sveigjanleiki verði nýttur eins og unnt er til þess að koma til móts við beiðnir einstaklinga og fjölskyldu um að flytja þá þjónustu milli tímabila sem greiðsluhlutdeild nær til.
- Við útfærslu gæti verið skynsamlegt að miða við heilar vikur, þ.e. ekki sé veittur afsláttur ef pláss er t.d. nýtt annan hvern dag enda getur framkvæmd ella orðið mjög flókin og hætta yrði mikil á villum í útreikningi gjalda.
Í framhaldi af þessu fer ofangreint nú til umræðu og ákvörðunartöku í sveitarstjórn Norðurþings. En að endingu hvet ég ykkur öll til að draga fram spilin í kvöld. Færum augun örlitla stund af skjánum og rifjum upp heiðvirð spil til að kenna börnunum okkar eins og Vist, Kana og Rommý.