Covidpistill sveitarstjóra #11
Í morgun voru tvö ný smit staðfest í Norðurþingi og hafa þá verið greind þrjú lögheimilistengd smit í sveitarfélaginu. Viðkomandi einstaklingar eru í einangrun og mál þeirra tveggja í góðum höndum rakningarteymisins. Ég vil senda mínar bestu baráttukveðjur til allra sem glíma við covid-sjúkdóminn með óskum um skjótan bata. Hér á Norðurlandi eystra hafa alls greinst 35 smit og flest á Akureyri eða 26 talsins. Heildarfjöldi smita á Íslandi er kominn í 1364.
Fréttir síðustu daga sýna það að öll byggðarlög á landinu þurfa að undirbúa sig undir að hópsmit geti orðið raunveruleiki sem þurfi að takast á við. Það er ekki um annað að ræða en gera allt sem í okkar valdi stendur til að minnka líkurnar á því að það gerist. Það gerum við með því að vera sem mest heima og hlýða Víði! Við erum að fara inn í tvær mjög krítískar vikur í faraldrinum sem geta haft afdrifarík áhrif á það hvort okkur takist að hafa hemil á hlutunum og hefja raunverulega ferð okkar niður kúrfuna. Því megum við ekki verða værukær, sýnum áfram ábyrgð og festu í sóttvörnunum.
Þau eru til eftirbreytni viðbrögð umráðaaðila stærstu orlofsbústaðabyggðanna sem hafa óskað eftir því mörg hver að einstaklingar afbóki orlofshús félaganna yfir páskana. Enda eru tilmæli yfirvalda kýr-skýr; verjum páskunum heima. Á fundi Almannavarnarnefndar í umdæmi Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra í morgun er sérstökum tilmælum beint til eigenda sumarhúsa að leigja þau ekki út um páskana. Sjá má tilkynninguna í heild sinni hér: https://www.logreglan.is/yfirlysing-fra-almannavarnanefnd-i-umdaemi-logreglustjorans-a-nordurlandi-eystra/
Það er rétt að vekja athygli á að byggðarráð Norðurþings fundaði í gær og voru samþykktar aðgerðir vegna covid-19 í 16 liðum á þeim fundi. Sjá nánar hér undir dagskrárlið nr. 11: https://www.nordurthing.is/is/stjornsysla/skjol-og-utgefid-efni/fundargerdir/byggdarrad-nordurthings/1382. Ég hvet íbúa til að kynna sér þessar fyrstu viðbragðsaðgerðir, en fleiri aðgerðir verða kynntar á næsta fundi ráðsins miðvikudaginn 8. apríl n.k.
Að lokum: Það eru þrjár vikur liðnar síðan allt snérist á hvolf í þjóðfélaginu vegna covid-19 faraldursins. Fæstir gerðu sér grein fyrir því í upphafi hversu harkalegar afleiðingar kórónuveiran hefði á heimsbyggðina og ekki sér enn fyrir endann á þessu öllu saman. Við höfum skipulagt og unnið málin nokkurn vegin dag frá degi og það hefur ríkt samkennd og samstaða í baráttunni, auk þess sem ákvarðanir þríeykisins svokallaða, þeirra Ölmu, Víðis og Þórólfs hafa reynst þjóðinni heilladrjúgar og myndað aukið traust til þeirra í brúnni sem nú sigla fleyinu í fárviðrinu. Mér finnst rétt að líta til baka og þakka fyrir öll þau viðbrögð sem gripið hefur verið til í baráttunni hingað til. Þótt óttinn grípi fólk og óvissan um afdrif okkar, hvort heldur heilsufarsleg eða efnahagsleg geti verið nýstandi, þá mun vora. Það mun koma sumar og það mun aftur vaxa blóm í haga. Við höldum einfaldlega áfram þótt sporin geti verið þung, því valmöguleikinn að gera það ekki er auðvitað útilokaður. Ég óska ykkur öllum ánægjustunda um helgina.
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri