Covidpistill sveitarstjóra #3
Það er rétt að byrja á því að hrósa skólafólkinu okkar fyrir að halda uppi stífu verklagi tengt samkomubanninu og nú hertum aðgerðum í því tilliti. Starfið í skólunum okkar gengur heilt yfir mjög vel og þótt aðstæðurnar séu með eindæmum sérstakar kvikna á hverjum degi nýjar hugmyndir að lausnum, nýjar leiðir til náms og ný tækifæri til að láta gott af sér leiða. Höldum áfram á sömu braut.
Ég vil líka færa sérstakar þakkir til allra þeirra sem séð hafa um snjómokstur og þjónustu við okkur íbúana á síðustu dögum og vikum. Veturinn hefur verið leyfi ég mér að segja hræðilegur, hvað fannfergið varðar og undantekningarlítið mikið álag á bæði menn og tæki. Hafið þakkir fyrir ykkar störf.
Enn berast ekki fregnir af staðfestu smiti í sveitarfélaginu, sem er gleðilegt. Við skulum þó vera undir það búin að það haldi ekki um alla framtíð eins og allir skilja. Við munum taka á þeirri stöðu þega hún kemur upp af yfirvegun og umhyggju í samræmi við allar viðbragðsáætlanir. Dæmin sem við heyrum af á hverjum degi sýna okkur hversu mikilvægt það er að standa vaktina saman og aldrei gefa afslátt af þeim fyrirmælum sem sóttvarnarlæknir og yfirvöld hafa gefið út. Sýnum ábyrgð öll sem eitt í því.
Í dag var fundað á vegum aðgerðarhópsins sem heldur utan um vinnslu á tillögum sveitarfélagsins til að mæta fyrirtækjum og einstaklingum vegna þeirra aðstæðna sem covid-19 faraldurinn hefur sett okkur í. Fundað var sömuleiðis með Framsýn stéttarfélagi og Samtökum atvinnurekenda á Norðausturlandi (SANA) um stöðuna sem var gagnlegt. Áframhaldandi gott samstarf verður um þessi mál öll á þeim vettvangi.
Eins og áður hefur komið fram munu þær aðgerðir sem sveitarfélagið mun grípa til taka mið af þeim hugmyndum sem nú þegar hafa komið frá hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Á byggðarráðsfundi n.k. fimmtudag verður fjallað um stóru myndina í stöðunni eins og hún blasir við í Norðurþingi og ákvarðanir teknar er snúa að t.a.m. gjaldtöku í velferðarþjónustu vegna skertrar þjónustu, þ.e. leikskólagjöld, mötuneytisgjöld, frístund o.s.frv.
Að lokum vil ég hvetja til þess að við munum eftir því að það skiptir alla máli að styðja við okkar góðu fyrirtæki hér á svæðinu þótt okkur öllum séu takmörk sett við þessar aðstæður. Gerum hvað við getum til að versla sem mest hér á svæðinu og munum að þetta gengur yfir. Þetta er tímabundið ástand. Við þurfum að minna hvert annað á það á hverjum degi. Höldum áfram samstöðunni því hún er eini lykillinn að sigri í þessari baráttu. Glæsileg mynd Tolla sem fylgir pistlinum í dag minnir okkur svo á að það kemur aftur betri tíð með blóm í haga og tækfæri munu gefast til þess, með fjölskyldu og vinum, að njóta aftur töfra landsins okkar.
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings