Upplýsingar vegna Húsavíkurflugs
Eins og fram hefur komið áætlaði Flugfélagið Ernir að hætta flugi á Húsavíkurflugvöll núna um mánaðarmótin en tap hefur verið á flugleiðinni um nokkurt skeið. Forsvarsmenn Ernis komu í lok ágúst og upplýstu byggðarráð Norðurþings um stöðuna. Í framhaldi af því tóku sveitarstjórar Norðurþings og Þingeyjarsveitar upp samtal við Samgönguráðuneytið um aðkomu ríkisins að flugleiðinni með einhverjum hætti. Vegagerðin kom að málinu um miðjan september og hefur fundað með Flugfélaginu Erni. Þær viðræður hafa leitt til þess að hægt verður að fljúga áfram þessa flugleið næstu tvo mánuði. Von er á fréttatilkynningu þess efnis og opnað hefur verið fyrir flugbókanir.
Samgönguráðuneytið, Vegagerðin og Flugfélagið Ernir hafa unnið mjög vel með sveitarfélögunum í þessu máli. Málinu er samt hvergi lokið og er nauðsynlegt að skoða almenningsamgöngur á svæðinu til framtíðar. Þeirri vinnu verður haldið áfram næstu vikur.
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri