Hólsfjöll
Við hefjum för okkar á Hólsfjöllum, fyrrum Fjallahreppi, en hann varð sérstaktsveitarfélag árið 1893; - klauf sig úr Skinnastaðarhreppi, og voru þá um 100 manns búsettir í hreppnum. Árið 1994 sameinaðist Fjallahreppur Öxarfjarðarhreppi. Sagt er að fyrsta býli á Hólsfjöllum hafi heitað Hóll, og af því sé nafn sveitarinnar dregið. Á Hólsfjöllum var sauðfjárbúskapur stundaður um aldaraðir. Þrátt fyrir að sandurinn sé áberandi, er kjarnmikinn gróður víða að finna fyrir sauðfé og víst er það eitt að vænleiki Hólsfjallafjárins var landsþekktur – allt til 1991 er Hólsfjöllin voru friðuð fyrir búfjárbeit af hálfu hins opinbera. Enn er vitnað í Hólsfjallahangikjötið og sannorðir menn vitna um að síðuföll bestu útigöngusauðanna gátu orðið allt að þverhandarþykk – og geri nú aðrir staðir betur. Við friðun Hólsfjallanna lögðu þáverandi bændur á Grímsstöðum, Grímstungu og Hólsseli niður búskap eða fluttu sig með hann annað. Byggðin á Hólsfjöllum er þó fjarri í eyði farin, þar er rekin myndarleg ferðaþjónusta á tveimur býlum Grímstungu II og Grímstungu III, sem mynda bæjarþyrpinguna við Grímsstaði. Til margra áratuga hefur þar verið sinnt veðurathugunum og lengst af hafa Grímsstaðabæirnir verið áningarstaður þeirra sem um Fjöllin fara – heimamenn vanir því að barið sé upp á í ófærð og vegfarendum veittur beini og önnur aðstoð. Helstu býli önnur voru Hólssel, þar sem búið var til 1991 en er nú sumardvalarstaður, Grundarhóll, en þar var búið til 1962, Víðirhóll og búið þar til 1965 og Nýhóll, þar sem búið var fram á þessa öld. Við Víðirhól stendur samnefnd kirkja og byggð var 1926. Undanfarin ár hefur verið messa í kirkjunni um Verslunarmannahelgina. Hólsfjallafólk heldur tryggð við átthagana og sumir hverjir eiga þar sín sumardvalarhús. Heimildir og sagnir eru til um fleiri býli á en nefnd hafa verið á Hólsfjöllum, þar sem búið hefur verið fyrr á öldum, s.s. Hvannastaðir (1855-1878), norður í Búrfellsheiði; Hóll (heimildir frá 1703-1886) vestur af Nýhóli; Fagridalur (1860-1944) norðvestur af Nýhóli; Ás (1861-1876) í landi Hólssels; Nýibær 1851-1899) í landi Grímsstaða og (Langavatn 1852-1876) í landi Grundarhóls. Enn má nefna bæina Þrælagerði, Víðines og Bakkastaði en fátt til frásagnar um þá utan rústirnar einar.
Sífelld barátta var við sandinn og um aldamótin 1900 varð sjálfur Grímsstaðabærinn að hörfa frá sínu forna bæjarstæði vegna uppblásturs og byggður upp nýr bær á þeim stað þar sem hann er nú. Lögferja var hjá Grímsstöðum yfir Jökulsá en brú var þar fyrst byggð 1947.
Vetrarríki er á Hólsfjöllum, en ægifagurt útsýni til allra átta með tignarleg fjöll Haugsöræfanna til austurs og Dimmafjallgarðs til suðurs, falda bakgrunn myndarinnar. Og á sumrin má þar njóta friðar og einstakrar náttúru sem hvergi á sér aðra líka.
Til norðurs liggja Hólsfjöllin að Öxarfirði. Frá byggðinni á Hólsfjöllum liggur leiðin niður um Hólssand í Öxarfjörð: mikið sandsvæði með melgresisgígum. Af hálfu Landgræðslu ríkisins hefur mikið verið unnið að uppgræðslu á svæðinu. Þegar uppgræðsla hófst. stafaði byggðinni í Öxarfirði hreinlega hætta af ágangi sandsins sem barst óðfluga niður í byggðina.
Leiðin frá Grímsstöðum um Hólssand til byggða er um 40 kílómetrar, en sú mælieining er afstætt hugtak. Á bundnu slitlagi er slíkur spotti stuttur - hann er nokkuð lengri eftir illfærum malarvegi og ótrúlega langur í ófærð og vondu veðri þegar hver metrinn er gangandi manni sigurinn einn.
Texti: Níels Árni Lund