Núpasveit
Innan fyrrum Presthólahrepps heita sveitirnar hver sínu nafni - til austurs taldar: Núpasveit, Vestur-Slétta og Austur-Slétta og innan þeirra eru þorpin Kópasker og Raufarhöfn. Verður nú haldið á vit þessara fallegu sveita sem þrátt fyrir ólíkt landslag og landkosti átti hver sinn sjarma og eiga enn.
Sveitin milli Öxarfjarðarnúps og Snartarstaðanúps, Núpasveit, sækir nafn sitt til þessara voldugu útvarða hennar. Norðan við Brunnárósa og vatnasvæðis Núpsmýrarinnar hækkar landið og enn ein falleg sveitin framundan. Þar sem ekið er upp á þennan hávaða heitir Sveltingur. Eins og gerist og gengur í góðum sveitum er ekki örgrannt um að þar geti verið fleiri á ferli en venjulegt mannsaugað greinir dags daglega og ekkert nema gott um það að segja.
Núpasveitin, allt að sandsvæðinu norðan Kópaskers er vel gróin en þó má sjá berangursleg holt og glitta í opin moldarbörð að ógleymdu Presthólahrauninu sem vall fram sveitina frá upptökum sínum við Rauðhóla um 15 km ofan við byggðina. Hraunið er víðast hvar vel gróið en það býður líka upp á svipmikla hraundranga í ótal myndum, rauðabruna í hólum, sprungur og hættulegar gjótur eins og góðu hrauni sæmir. Valþjófsstaðafjallið 369 m hátt, tignarlegt og fallegt sker sig úr; einkennisfjall á svæðinu en ofar í heiðinni eru Grjótfjöll og Kálfafjöll og við rætur þess síðarnefnda er Gæsavatn. Til austurs er svo Hólaheiðin, gróin og mikið beitiland með mýrardrögum og hraunsvæðum frá þeim sömu upptökum og hraunið við Presthóla. Þar uppfrá er að finna náttúruperluna Kvíarnar með sínum svipmiklu og fallegu hraunmyndum og Arnarstaðavatn. Þá fer að verða skammt í Hrauntanga, þar sem búið var um aldaraðir með tilheyrandi ótæmandi gestrisni sem fylgdi því að búa fjarri byggð en í alfaraleið. Þar bjó á barnsaldri skáldið Guðmundur Magnússon – Jón Trausti (fæddur á Rifi á Melrakkasléttu 1873, lést úr spönsku veikinni 1918) og segja einhverjir að til þessa umhverfis hafi hann sótt efniviðinn í skáldsögu sína Heiðarbýlið. Í Hrauntanga bjó einnig um tíma Kristín Sigurðardóttir sem átti létt með að setja saman vísurnar. Þegar hún flutti þangað var trúlega lítill slægur í bæjarhúsunum og vitnar vísa hennar þar um:
Það er galli gæðum á,
gefst hér varla friður,
bærinn allur inni sá,
er að falla niður.
Dóttir Kristínar, Helga er síðar varð húsmóðir á stórbýlinu Leirhöfn á Vestur-Sléttu eyddi æskudögum sínum upp í Hrauntanga. Einn sumardaginn fann Helga slétta og fallega hraunhellu upp við Arnarstaðavatn sem hún taldi að gott væri að hafa sem varinhellu við útidyrnar. Heim komin með byrðina kastaði hún fram þessari vísu:
Helluna bar ég herðum á
hagur ei þó batni.
Alla leiðina ofan frá
Arnarstaðavatni.
130 árum eftir að Helga bar helluna þá arna heim í Hrauntanga, fannst hún þar í tóftarbrotunum. Jóhann Helgason í Leirhöfn, sonarsonur Helgu náði í helluna og hreinsaði og prýðir hún nú vegg í Leirhöfn með ofangreindri vísu á fallegum skildi.
Ekki verður svo skilið við Hrauntanga að ekki sé þar minnst á Halldóru og Níels Sigurgeirsson, þá góðu húsráðendur sem þar bjuggu síðast 1911-1943. Þau hjón voru gestrisin með afbrigðum og fyrir kom að aðborin langsótt matarföng færu beint ofaní þurfandi ferðamenn. Marga undraði hvað margir gátu gist þar samtímis og væri spurt um hvort hægt væri að bæta fleirum við, svaraði Halldóra: “Í Hrauntanga hefur aldrei vantað húsrými”. Verðugt væri að gera þessu fræga heiðarbýli veglegan minnisvarða þar sem saga þess og ábúenda væri gerð góð skil.
Nú höldum við aftur til byggða og hefjum för um sveitina við fyrrnefndan Svelting.
Í dalverpi skammt þar ofar í landinu eru Daðastaðir hvar var hreppstjórasetur til marga ára en nú rekið öflugt fjárbú og mikið uppgræðslustarf á heimalöndum. Þar skammt frá eru býlin Arnarstaðir þar sem búið var til 1976 og Arnarhóll en búskap þar lauk 1979.
Með ströndinni eru lítil klettabelti og milli þeirra fallegar sandfjörur. Skammt norðan Brunnárósa er Buðlungahöfn – skipalægi frá náttúrunnar hendi en hefur í aldanna rás látið á sjá vegna sandburðar Brunnár og Jökulsár á Fjöllum. Ofan af hálendinu kemur Naustáin og endar för sína á klettabrún í fallegum fossi. Skammt norðan hennar liðast Valþjófsstaðalækurinn með samnefndum bökkum þar sem byggðakjarninn Valþjófsstaðir eru. Þar hefur um langan aldur verið myndarlega búið og er enn. Framundan til sjávar er mikil og falleg sandfjara, Magnavík, veiði skammt undan landi og ótæmandi forðabúr fugla, þ.á.m. kríunnar sem mjög er áberandi á þessum slóðum.
Í túnfæti norðan við Valþjófsstaði er eftirtektarverð bygging sem er aðstaða dugmikillar listakonu og býr skammt þar frá í húsinu Vin, með manni sínum, ættuðum frá Valþjófsstöðum sem er héraðslæknir sveitarinnar. Það er hreint ómetanlegt fyrir jafn strjálbýla byggð og austurhluti Norðurþings er að eiga slíkan jarðfastan máttarstólpa og bjargvætt.
Nokkru ofar vegar er býlið Einarsstaðir, en búskap þar lauk 1976.
Enn höldum við út sveitina með ræktun á báðar hendur enda blasa nu Presthólar við hvar áður var prests- og prófastssetur um margra ára skeið og af staðnum dró fyrrum Presthólahreppur nafn sitt. Þar réði lengi ríkjum Halldór Bjarnarson og var bróðir Ragnheiðar Björnsdóttir konu Páls Ólafssonar skálds, mikils metinn prestur en jafnframt umdeildur, enda stóð hann í eilífum málaferlum og illdeilum. Á Presthólum var frá fornu kirkja sveitarinnar með tilheyrandi kirkjugarði, en lagðist af er ný sóknarkirkja var byggð við Snartarstaði 1928.
Ofan við Presthóla er býlið Efri-Hólar á fallegu bæjarstæði afmörkuðu votlendi og svipmiklu hrauninu. Katastaðafjallið er skammt norðar og þar samnefnt sauðfjárbýli. Nýr vegur austur um Hólaheiði í Þistilfjörð liggur þar um og þaðan rennur Klapparósinn niður mýrarnar og fram með Brekkuhamrinum til sjávar. Í honum er lítil vatnsaflsvirkjun. Framundan hamrinum eru Brekkusker. Sauðfjárbýlið Brekka er á fallegu bæjarstæði suður á Brekkuhólnum sem teygir sig að sandströndinni. Þar var sandurinn á mikilli hreyfingu en með landgræðsluframkvæmdum hefur hann verið haminn af miklum dugnaði. Þegar komið er fyrir Brekkuhólinn er hvert húsið á fætur öðru, Garður, Safnahúsið, í fyrrum Núpasveitarskóla þar sem áður var heimavist., Snartarstaðakirkja með sínum kirkjugarði. Þá Hvoll og Snartarstaðir og handan Snartarstaðalækjar eru svo Hjarðarás og Ás, fyrrum íbúðarhús héraðslæknisins en hefur lifað tímana tvenna og er nú sumardvalarstaður í einkaeign. Á Snartarstöðum var lengi tvíbýli en nú er jörðin nytjuð af einum aðila. Upp á hvolnum hefur risið reiðhöll fyrir hestamenn svæðisins. Horft til fjalla ber mest á Kollufjallinu sem ber nafn sitt með rentu, bæjarfjall Kópaskers, 148 metra hátt. Frá tanki í fjallinu liggur vatnsveitan til bæjanna og þorpsins á Kópaskeri, en í hann er dælt vatni frá Klapparósi við Katastaði. Hlúð hefur verið að æðarvarpi við Kotatjörnina og vekja hræðurnar – fígúrur í skrautlegum klæðum athygli ferðamannsins.
Þorpið Kópasker blasir við á Röndinni en við æjum ekki þar að sinni en höldum út fyrir Kotásinn með Klifatjörn á vinstri hönd og út á Sandana sem einkenna landið allt þar til komið er í Hafnarskörðin. Til austurs má sjá upphaf Leirhafnarfjalla og heitir þar Fjallarendi.Á söndum undir fjöllunum var flugvöllur – raunar tveir til margra ára og þjónaði m.a. umsvifum á Raufarhöfn á síldarárunum svonefndu.
Mörg fjöllin í Leirhafnarfjallgarðinum hafa sín nöfn og þar er að finna mörg örnefni. Til norðurs blasir Snartarstaðanúpurinn við, 284 m hár og endar til vesturs í þverhníptu bjargi. Hafnarskörðin aðskilja núpinn frá fjöllunum og um þau alfaraleið að fornu og nýju. Um þau liggja sveitamörku Vestur-Sléttu og Núpasveitar.
Ströndin frá Kópaskeri og að Snartarstaðanúpi er lábarin hvar skiptast á klettar, malarkambar og sandfjörur og endar hún í Núpsvíkinni þar sem selabyttum var brýnt. Ofar malarkambanna er landið gróið grösum og lyngi allt að sandsvæðinu.
Eins og í öllum sveitum héraðsins voru fleiri býli en upptalin eru í Núpasveit. Gerð hefur verið grein fyrir Hrauntanga en einnig má nefna Þjófsstaði þar sem heimilir eru um búsetu frá 1703-1895 og enn önnur sem vitað er um að búið var á þótt heimildir skorti aðra en bæjarrústirnar og nöfnin. Má þar nefna Klaufagerði, Brennigerði og Beinagerði í landi Daðastaða; Grafargerði og Tröllasel í landi Arnarstaða; Fellshús og Kjarnagerði í landi Valþjófsstaða; Brekkusel og Móagerði í landi Brekku og Baðstofustæftur og Snartarstaðakot í landi Snartarstaða.
Texti: Niels Árni Lund