Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

431. fundur 01. júní 2023 kl. 08:30 - 10:40 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Hafrún Olgeirsdóttir formaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason varaformaður
  • Aldey Unnar Traustadóttir aðalmaður
  • Áki Hauksson áheyrnarfulltrúi
  • Benóný Valur Jakobsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Bergþór Bjarnason fjármálastjóri
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Bergþór Bjarnason fjármálastjóri
Dagskrá
Undir lið nr.1, sat fundinn Huld Hafliðadóttir frá STEM- Húsavík.

Undir lið nr.2, sat fundinn Karen Mist Kristjánsdóttir verkefnastjóri Græns iðngarðs á Bakka.

1.STEM Húsavík, kynning

Málsnúmer 202305115Vakta málsnúmer

Huld Hafliðadóttir kynnir fyrir byggðarráði starfsemi STEM Húsavík. Markmið STEM Húsavík er að efla íbúa og byggja upp færni með því að tengja saman fjölbreyttar auðlindir, náttúru og samfélag.
Byggðarráð þakkar Huld Hafliðadóttur fyrir góða og áhugaverða kynningu á starfsemi STEM Húsavík.

2.Stýrihópur Grænn iðngarður á Bakka

Málsnúmer 202302026Vakta málsnúmer

Á fund byggðarráðs mætir Karen Mist Kristjánsdóttir verkefnastjóri Græns iðngarðs á Bakka og fer yfir verkefni undanfarinna vikna.
Byggðarráð þakkar Karen Mist fyrir komuna á fundinn og kynningu á þeim fjölmörgu verkefnum sem verið er að vinna í og tengjast Grænum iðngarði á Bakka.

3.Stjórnskipulag og skipurit Norðurþings

Málsnúmer 202207036Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur uppfærsla á áður samþykktu stjórnskipulagi og skipuriti Norðurþings sem tekur gildi í júní 2023.
Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi uppfærslu á skipuriti Norðurþings sem snýr m.a. að velferðarsviði, vegna innleiðingar á farsældarlögum, sem áætlað er að verði lokið á næsta ári. Að loknu innleiðingartímabili er gert ráð fyrir að skýrari mynd af ávinningi fáist.

Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna taka til allra þjónustu sem er veitt innan skólakerfisins, í leik-, grunn- og framhaldsskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Jafnframt er átt við þjónustu sem er veitt innan heilbrigðiskerfisins, á heilsugæslustöðvum, heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum og félagsþjónustu sem er veitt í þágu barna innan sveitarfélaga, barnaverndarþjónustu og þjónustu við fötluð börn. Frumvarpið leysir ekki af hólmi gildandi lög um einstaka þjónustuþætti enda hugmyndin með tilurð þess að stuðla að samfellu og aukinni skilvirkni í þeirri þjónustu sem þegar er veitt af ýmsum aðilum. Þetta mun jafnframt leiða til betri nýtingar starfskrafta starfsfólks með markvissri þjónustu og skýrari verkaskiptingu þvert á kerfi.

Ráðið telur vænlegast til árangurs að ofantalin málefni, sem eru á forsvari sveitarfélagsins, verði innan sama sviðs þegar innleiðingartímabili verður lokið.

4.Brúin yfir Skjálfandafljót við Ófeigsstaði í Útkinn

Málsnúmer 202305117Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur ályktun til vegagerðarinnar vegna ástands og umferðatakmarkana á brú yfir Skjálfandafljót í Útkinn. Þar yfir er helsta leiðin milli Akureyrar og Húsavíkur og á sjöunda hundrað bíla fara þar um á sólarhring.
Frá og með 1.júní nk. verður brúin yfir Skjálfandafljót í Köldukinn einungis opin fólksbílum. Vöru- og fólksflutningabílum verður óheimilt að aka yfir brúnna. Þeim bílum verður beint um Aðaldal og Reykjadal, veg nr. 845, yfir Fljótsheiði á hringveginum. Það lengir leiðina milli Akureyrar og Húsavíkur um 5,5 km.

Þessar takmarkanir eru bagalegar og kostnaðarsamar fyrir ferðaþjónustuna og íbúa á svæðinu. Einnig hafa takmarkanirnar í för með sér mikið óhagræði í flutningum á þessari leið, til dæmis er öll steypumöl fyrir Húsavík sótt í farveg Skjálfandafljóts handan brúarinnar. Auk þess bætist við einn fjallvegur á umræddri leið.

Samkvæmt samgönguáætlun verður ný brú ekki tilbúin fyrr en árið 2028 og ekkert sem bendir til annars en að takmarkanir munu gilda næstu fimm árin.

Byggðarráð lýsir yfir miklum áhyggjum af þessari einhliða ákvörðun vegagerðarinnar og hvetur ríkisstjórnina til þess að hraða áformum sínum um nauðsynlegar endurbætur á umræddum vegkafla.



5.Þróunarverkefni um samþætta heimaþjónustu

Málsnúmer 202305105Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur til kynningar þróunarverkefni um samþætta heimaþjónustu. Ábyrgð á verkefninu liggur hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, tímabil verkefnis er frá 2024-2027.
Byggðarráð tekur jákvætt í að Norðurþing verði hluti af þróunarverkefni í samstarfi við HSN.
Félags- og heilbrigðisþjónusta sem veitt er eldra fólki í heimahúsi er samþætt, undir sameiginlegri mannafla- og fjármálastjórn.

Markmið aðgerðarinnar er að eldra fólk fái markvissa og samfellda þjónustu heim samkvæmt faglegu mati. Leitast verður eftir að fá reynslu af ólíkum leiðum hvað varðar ábyrgð á rekstri þjónustunnar sem og öðrum þjónustuþáttum sem möguleiki er á að samþætta betur við samþætta heimaþjónustu. Má í því sambandi nefna dagdvalir, heima-endurhæfingarteymi, öldrunarráðgjöf, dvalar- og hjúkrunarheimili og heimasjúkraþjálfun. Þjónustusvæði fái stuðning og ráðgjöf við innleiðingu, eftirfylgd og við mat á árangri verkefna.

Sveitarstjóra falið að fylgja verkefninu eftir.

6.Þjónustustefna Norðurþings

Málsnúmer 202305116Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja til kynningar fyrstu drög að þjónustustefnu Norðurþings. Þjónustustefnan er unnin í samvinnu við Byggðastofnun sem ber ábyrgð á verkefninu.
Lagt fram til kynningar.

7.Fundargerðir Leigufélags Hvamms ehf.2023

Málsnúmer 202305118Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja fundagerðir aðalfundar og stjórnarfundar Leigufélags Hvamms sem haldnir voru þann 26. maí sl.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 10:40.