Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings - 272

Málsnúmer 1811004F

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Norðurþings - 86. fundur - 20.11.2018

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 272. fundar byggðarráðs Norðurþings.
Til máls tóku undir lið 4 "Fyrirspurn um stöðu framkvæmda 2018 og 2019-2021": Bergur og Kristján.

Til máls tóku undir lið 2 "Fundargerðir Leigufélags Hvamms 2017": Hjálmar, Kristján og Bergur.

Hjálmar leggur fram eftirfarandi bókun:
Fyrir sveitarstjórn liggur staðfesting á fundargerð byggðaráðs Norðurþings frá 15. nóvember síðastliðnum þar sem fjallað var um málefni Leigufélags Hvamms ehf. Þar kemur fram að félagið Arctic Edge Consulting ehf. óskar eftir fresti til að hefja framkvæmdir á Útgarðsreit sem stjórn Leigufélagsins samþykkir.
Sýndarframkvæmdir eru hafnar þrátt fyrir að samningur þar um hafi verið fallinn úr gildi. Ljóst má vera að málið er afar umdeilt og mætir miklum mótbyr í samfélaginu. Í annan stað er ekki sýnt fram á að salan á bílakjallara og framsalssamningurinn um Útgarð 6 - 8 muni bæta stöðu Leigufélagas Hvamms ehf., heldur þvert á móti skaða félagið.
Hlutfall aldraðra af mannfjölda þjóðarinnar fer hækkandi. Samfélagið hefur skyldur gagnvart íbúum samfélagsins og til þess skipuleggjum við framtíðina; hvar við bjóðum okkar eldra fólki að búa. Öll sveitarfélög vinna að þessu. Svæðið við Útgarð var hugsað fyrir eldri borgara vegna staðsetningarinnar.
Nú blasir skammsýni meirihluta sveitarstjórnar við og rökin eru sögð okkar eigin aumingjaskapur og mikilvægi þess að fá framkvæmdir á svæðið. Sannarlega er það mikilvægt að framkvæma en af hverju að selja umrætt svæði sem er hugsað fyrir eldri borgara á kostnað þess að fá framkvæmdir af stað. Ítrekað hefur verið bent á önnur svæði þar sem áhugasamir aðilar geta byggt fjölbýlsihús. Það liggur fyrir að þetta svæði virðist verðmætara en önnur en meirihluti sveitarstjórnar tilbúinn að afhenda það einkaaðila. Af hverju einmitt þarna nema á þeim forsendum að svæðið er mikilvægt, mikilvægt fyrir eldri borgara!
Skipulag svæðisins hefur nú verið breytt þvert á þróun á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Og enn skín í skammsýni meirihluta sveitarstjórnar! Og athugasemdir einstaklinga í félagi eldri borgara að engu hafðar. Meirihluti sveitarstjórnar Norðurþings víkur hér frá samfélagslegum sjónarmiðum fyrir óútskýranlega skammtíma ákvörðun. Það verður dýrkeypt að horfa ekki lengra fram í tímann en raun ber vitni.

Kristján leggur fram eftirfarandi bókun:
Frá upphafi hafa hagsmunir eigenda félagsins verið hafðir að leiðarljósi í ákvörðunum og áætlunum sem gerðar hafa verið, til að minnka líkur á að leggja þurfi Leigufélagi Hvamms ehf til frekari fjármuni en þegar hefur verið gert af eigendum þess. Jafnframt hefur hagsmunum núverandi íbúa eignarinnar við Útgarð 4 verið gætt enda stjórn umhugað um að þeir íbúar sem leigja húsnæði í eigninni búi við öryggi á húsnæðismarkaði.
Það var mat stjórnar leigufélagsins í lok síðasta árs að algerlega nauðsynlegt væri að létta á lánum félagsins og endurfjármagna það, áður en áhvílandi lán verða óviðráðanleg. Sveitarfélögin hafa setið uppi með vel á annað hundrað milljón króna tap af félaginu frá stofnun þess og nú er mál að linni. Salan á bílakjallara félagsins er besta leiðin til þess að ná þessum markmiðum og reyna til þrautar að lækka rektrarkostnað og afborganir lána með endurfjármögnun. Ráðgjafar stjórnar hafa verið samstíga og sammála því að leiðin sem farin var og samþykkt af öllum aðildar sveitarfélögum leigufélagsins sé skynsamleg. Í stóra samhenginu fyrir sveitarfélagið ber síðan að horfa til þess að salan á bílakjallaranum er forsenda fyrir því að byggðar séu 18 nýjar íbúðir sem skila fasteignagjöldum til sveitarfélagsins á að giska 5 milljónum króna á ári.

Fundargerðin er lögð fram til kynningar.