Kynningarbréf frá Umhverfisstofnun varðandi fyrirhugaða friðlýsingu Gjástykkis skv. rammaáætlun
Málsnúmer 201306062
Vakta málsnúmerBæjarráð Norðurþings - 77. fundur - 27.06.2013
Fyrir bæjarráði liggur liggur almenn tilkynning frá Umhverfisstofnun til sveitarfélagsins varðandi upphaf ferils að fyrirhugaðri friðlýsingu sem mun ná til þess landsvæðis jarðarinnar Reykjahlíð m.a. í Norðurþingi sem kennt er við Gjástykki. Um er að ræða feril í samræmi við fyrirliggjandi rammaáætlun, (100 Gjástykki).Í lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun er kveðið á um verklag og yfirferð á virkjunarkostum og flokkun þeirra í þrjá flokka; verndarflokk, nýtingarflokk og biðflokk. Samkvæmt ákvæðum laganna ber að leggja fram á Alþingi, eigi sjáldnar en á fjögurra ára fresti þingsályktunartillögu um flokkunina. Var fyrsta þingsályktunartillagan samkvæmt lögum þessum samþykkt 14. janúar 2013.Í 4. mgr. 6. gr. framangreindra laga kemur fram að stjórnvöld skuli hefja undirbúning að friðlýsingu þeirra svæðia sem falla í verndarflokk samkvæmt ákvörðun Alþingis og er þar með talin ástæða til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu. Um friðlýsingu svæðanna fer samkvæmt gildandi lögum um náttúruvernd. Samkvæmt framangreindri þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða fellur Gjástykki, innan marka Reykjahlíðar og nærliggjandi sveitarfélaga, í verndarflokk. Umhverfisstofnun hefur nú í samræmi við framngreint hafið undirbúning að friðlýsingu svæðisins. Sú vinna snýst meðal annars um umfang friðlýsingar, friðlýsingarflokk, mörk svæðis, hvaða reglur verði settar um þætti eins og framkvæmdir og umferð á svæðinu og vinnu að verndar- og stjórnunaráætlun fyrir svæðið. Þá skal bent á að samkvæmt 7. gr. framangreindra laga er það meginregla að sveitarfélög skulu samræma gildandi svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir verndar- og orkunýtingaráætluninni innan fjögurra ára. Umhverfisstofnun óskar eftir samvinnu við viðkomandi landeigendur og sveitarfélög, enda má ætla að mikil þekking sé að finna hjá þessum aðilum sem rétt er að lögð sé til grundvallar við ákvarðanir um friðlýsingu. Umhverfisstofnun vill því óska eftir að funda með forsvarsmönnum Norðurþings til þess að fara yfir málið. Bæjarráð ítrekar afstöðu sveitarfélagsins sem komið hefur skýrt fram í samráðsnefnd sem skipuð var um málið. Sveitarfélagið Norðurþing er andsvígt friðlýsingu Gjástykkis og mun ekki taka þátt í frekari samningumleitunum þar um.