Fara í efni

Úthlutun aflamarks Byggðastofnunar

Málsnúmer 201311042

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Norðurþings - 87. fundur - 14.11.2013

Fyrir bæjarráði liggur bréf frá Byggðastofnun vegna úthlutunar aflamarks stofnunarinnar að 400 þorskígildistonnum á Raufarhafnar til GPG Seafood og samstarfaðila. Á fundinn mætti Gunnlaugur Hreinsson, framkvæmdastjóri GPG - Seafood og fór yfir og kynnti starfsemi fyrirtækisins á Raufarhöfn. Bæjarráð fagnar fyrirliggjandi úthlutun og væntir þess að hún verði byggðarlaginu Raufarhöfn til framdráttar.

Bæjarstjórn Norðurþings - 31. fundur - 17.12.2013

Forseti bæjarstjórnar óskaði eftir að erindið yrði tekið inn á dagskrá með afbrigðum og var það samþykkt samhljóða. Til máls tóku: Hjálmar Bogi, Friðrik og Gunnlaugur. Eftirfarandi er bókun bæjarstjórnar sem var samþykkt samhljóða.

Ein af megin áherslum sveitarfélagsins Norðurþings er að stuðla að aukinni atvinnu í héraði með það að markmiði að tryggja stöðuleika og bættri velferð. Norðurþing hefur ár hvert sótt um byggðakvóta til Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins, auk þess hefur sveitarfélagið átt farsælt samstarf við Byggðastofnun um aðkomu stofnunarinnar að atvinnusköpun á Raufarhöfn.



Á þessu ári hefur Norðurþing fengið úthlutað eftirfarandi aflaheimildum í þorskígildistonnum talið. Húsavík 210 tonnum, Kópasker 55 tonnum, Raufarhöfn 149 tonnum að auki hefur Byggðastofnun úthlutað 400 tonnum til Raufarhafnar, vegna verkefnisins brothættar byggðir. Alls er um að ræða 814 þorskígildistonn á yfirstandandi fiskveiðiári.



Hafa ber í huga að tilgangur byggðakvótans er stuðningur við byggðarlög þ.e. að styrkja minni byggðir þar sem lífsafkoma íbúa er að umtalsverðu leyti háð veiðum og/eða vinnslu. Ljóst er að í framangreindum aflaheimildum felast verðmæti og tækifæri sem ekki væru til komin nema vegna atbeina sveitarfélagsins. Í ljósi þess leggur bæjastjórn Norðurþings ríka áherslu á að þeir aðilar sem veiða og vinna úr byggða- og Byggðastofnunarkvótanum leitist við að hámarka áhrif þeirra á byggðalög sveitarfélagsins og að veiðar og vinnsla á afurðum þessara aflaheimilda og aukaafurðir þeim tengdum verði unnar innan byggðalags eða sveitarfélagsins ef ekki er vinnsla í byggðalagi.



Það er bæði eðlileg og sanngjörn krafa bæjarstjórnar Norðurþings að allir sem að málinu koma leggi sig fram til að framangreindum markmiðum verði náð þannig að sem flest störf skapist innan sveitarfélagsins.