Félag eldriborgara á Raufarhöfn óskar eftir húsnæði til afnota
Málsnúmer 201401081
Vakta málsnúmerBæjarráð Norðurþings - 92. fundur - 16.01.2014
Fyrir bæjarráði liggur erindi frá nýstofnuðu félagi eldri borgara á Raufarhöfn þar sem óskað er eftir afnotum á húsnæði í eigu sveitarfélagsins undir starfsemina. Félagið hefur augastað á Ásgötu 1 (Breiðablik) og þá þann hluta húsnæðisins sem áður var íbúð. Bæjarráð tekur jákvætt í að finna viðeigandi húsnæði undir starfsemi félagsins og felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara um málefnið og leggja fram tillögu fyrir bæjarráð.
Bæjarráð Norðurþings - 93. fundur - 30.01.2014
Fyrir bæjarráði liggur erindi sem tekið var fyrir á síðasta fundi bæjarráðs en nýstofnað félag eldri borgara á Raufarhöfn óskaði eftir afnotum á húsnæði sveitarfélagsins að Ásgötu 1 (Breiðablik) á Raufarhöfn undir starfsemi sína. Bæjarstjóra var falið að ræða við bréfritara um málefnið. Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri hefur hitt fulltrúa FER (félag eldri borgara á Raufarhöfn) og farið yfir málefnið. Félagsmenn hafa mikinn áhuga á að fá afnot af húsinu að Ásgötu 1 og telja að það geti hentað vel undir þá starfsemi sem fyrirhuguð er innan félagsmanna en það er m.a. að mála, smíða og vinna að ýmiskonar hannyrðum. Rætt var um aðra möguleika og þar á meðal að fá aðstöðu í grunnskólanum en félagsmenn voru búnir að taka þá umræðu og er niðurstaðan sú að miðað við starfsemi félagsins er það talið óhentugt. Innan félagsmanna er að finna iðnaðarmenn og handverksfólk sem hefur áhuga á að dytta að húsnæðinu að Ásgötu 1 og því óskar félagið eftir að fá húsnæðið endurgjaldslaust til notkunar. Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og felur bæjarstjóra að vinna málið áfram.