Skipulagsstofnun óskar eftir umsögn um mat á umhverfisáhrifum efnistökusvæðis í Skurðbrúnum
Málsnúmer 201503090
Vakta málsnúmerBæjarráð Norðurþings - 135. fundur - 26.03.2015
Fyrir bæjarráði liggur ósk frá Skipulagsstofnun um umsögn um mat á umhverfisáhrifum efnistökusvæðis í Skurðbrúnum.
Með bréfi dags. 18. febrúar 2015 óskar Skipulagsstofnun eftir umsögn Norðurþings um hvort og á hvaða forsendum fyrirhuguð efnistaka í Skurðsbrúnum norðan Húsavíkur skuli háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 3. viðauka laga nr. 106/2000 og reglugerðar nr. 1123/2005.
Bæjarráð Norðurþings hefur kynnt sér greinargerð Vegagerðarinnar um fyrirhugaða efnistöku. Norðurþing er aðili að efnistökunni og vinnur nú að breytingu aðalskipulags og gerð nýs deiliskipulags vegna hennar.
Fyrirhuguð efnistaka fer fram í lítt grónu landi og rask á gróðurfari, fuglalífi eða öðrum náttúruminjum því óverulegt vegna efnistökunnar. Námuvegur er tæplega þriggja kílómetra langur, að mestu um gróið land. Hann fellur saman við áður fyrirhugaðan línuveg Landsnets. Flóra og fána svæðisins hefur verið rannsökuð í tengslum við umhverfismat fyrir háspennulínur að Bakka. Fornleifar hafa einnig verið kortlagðar á nánast öllu svæðinu og horft er til þess að fylgja leiðbeiningum Minjastofnunar Íslands um meðhöndlun þeirra fornleifa sem líklegar eru til að raskast við framkvæmdirnar. Nokkrar líkur eru á raski lítilla vatnsuppspretta Bakkaár við framkvæmdina en horft er til þess að gera viðeigandi ráðstafanir í samráði við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands Eystra til að draga sem kostur er úr líkum á mengun lindanna.
Bæjarráð Norðurþings telur að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar og mótvægisaðgerðum í greinargerð Vegagerðarinnar. Bæjarráð telur því ekki tilefni til að ofangreind framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum.
Fram kemur í gögnum Vegagerðarinnar hverjir yrðu leyfisveitendur vegna framkvæmdarinnar. M.a. þarf að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku til Norðurþings skv. skipulagslögum nr. 123/2010. Norðurþing er jafnframt landeigandi á svæðinu og þarf einnig að samþykkja efnistökuna sem slíkur.