Krafa Landverndar um nýtt umhverfismat vegna raflína frá Kröflu að Bakka
Málsnúmer 201503102
Vakta málsnúmerBæjarráð Norðurþings - 135. fundur - 26.03.2015
Fyrir bæjarráði liggur minnisblað frá Gauki Hjartarsyni vegna skipulagslegrar stöðu háspennulína.
Bæjarráð Norðurþings - 151. fundur - 10.09.2015
Fyrir bæjarráði liggur svar Skipulagsstofnunar við kröfu Landverndar um endurskoðun umhverfismats háspennulína frá Kröflu að Bakka
Lagt fram til kynningar
Svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025 er eitt af fyrstu stóru skipulagsverkefnum hérlendis sem unnin voru skv. ákvæðum laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Þar eru m.a. lagðar línur um legu háspennulína innan þeirra sveitarfélaga sem stóðu að svæðisskipulaginu. Aðalskipulagsáætlanir aðildarsveitarfélaganna sem unnin eru eftir samþykkt svæðisskipulagsins eru öll unnin skv. ákvæðum laga nr. 105/2006 og innihalda sérstakar umhverfisskýrslur. Þar með talið er Aðalskipulag Norðurþings 2010-2030, Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 og Aðalskipulag Skútustaðahrepps 2011-2023. Allar þessar skipulagsáætlanir hafa verið staðfestar af sitjandi umhverfisráðherrum.
Þann 26. apríl 2010 lagði Landsnet fram frummatskýrslu til Skipulagsstofnunar um háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík og jarðstreng frá Bjarnarflagi að Kröflu. Skipulagsstofnun gaf út sitt álit á matsskýrslu Landsnets þann 24. nóvember 2010. Sama dag gaf Skipulagsstofnun einnig álit sitt á sameiginlegu umhverfismati fyrir álver á Bakka, háspennulínur og virkjanir í Kröflu og Þeistareykjum.
Í ferlinu hefur því bæði verið fylgt ákvæðum laga nr. 106/2000 og 105/2006.
Landvernd telur að forsendur frá fyrirliggjandi umhverfismati séu gjörbreyttar þar sem ekki liggi fyrir að þörf sé á meiri orkuflutningum um háspennulínur til Bakka en 58 MW vegna fyrsta áfanga uppbyggingar kísilmálmverksmiðju PCC. Bæjarráð mótmælir því sem misskilningi. Áætlanir Norðurþings, Landnets og Landsvirkjunar miða að því að verulega meiri uppbygging verði á Bakka á komandi árum og að orkuþörf um háspennulínur Landsnets verði til lengri tíma hliðstæð því sem ætlað var í umhverfismati. Öll uppbygging innviða tekur mið af þeim áætlunum, þ.m.t. fyrirhuguð háspennulína þó unnt verði að reka hana á lægri spennu vegna fyrstu áfanga uppbyggingar iðnaðarsvæðisins. Það er ekki skynsamlegt að byggja upp raflínumannvirki sem ekki standast áætlanir til lengri tíma. Megin forsendur fyrir uppbyggingu línanna hafa því ekki breyst. Uppbygging línunnar skv. áætlunum mun styrkja öryggi raforkuflutnings á svæðinu.
Bæjarráð furðar sig á tímasetningu kröfu Landverndar. Eins og fram kemur í bréfum Landverndar féll Alcoa endanlega frá áformum sínum um uppbyggingu á Bakka árið 2011. Síðan þá hefur verið unnið að því að skipuleggja iðnaðarsvæði á Bakka fyrir fleiri og minni iðnaðarfyrirtæki eins og ítrekað hefur verið kynnt. Það er þó ekki fyrr en að útlit er fyrir að framkvæmdir við uppbyggingu fyrsta fyrirtækisins séu við það að hefjast að krafa Landverndar um nýtt umhverfismat kemur fram. Bæjarráð Norðurþings telur allar frekari tafir á uppbyggingu á Bakka afar óheppilegar og leggst því alfarið gegn því að fyrirhuguð uppbygging háspennulínanna verði sett í nýtt umhverfismat.
Bæjarráð Norðurþings fer fram á við Skipulagsstofnun að ekki verði farið fram á að unnið verði nýtt umhverfismat háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka líkt og Landvernd fer fram á.