Fara í efni

Mennta- og menningarmálaráðuneytið, skoðun á stöðu og framtíð framhaldsskóla á svæði Eyþings

Málsnúmer 201505059

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Norðurþings - 140. fundur - 21.05.2015

Fyrir bæjarráði liggur bréf frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem upplýst er að nú stendur yfir skoðun á stöðu og framtíð framhaldsskóla í Eyþingi.
Bæjarráð vísar til bókunar sveitarstjórnar Norðurþings þann 20. maí.
Hugmyndum um umbætur og framþróun framhaldsskóla á Norðurlandi eystra ber að fagna. Mikil vinna hefur farið fram undanfarið í Framhaldsskólanum á Húsavík til þess að bregðast við minni fæðingarárgöngum á aðalupptökusvæði skólans, t.d. með fjarnámsframboði og samstarfsþróun við aðrar skólastofnanir. Bæjarráð hvetur mennta- og menningarmálaráðuneyti til að gefa framhaldsskólum á Norðurlandi eystra svigrúm til þess að ræða saman af yfirvegun um hver ávinningur nemenda og samfélags af auknu samstarfi gæti orðið. Markmiðin með auknu samstarfi þurfa að liggja ljós fyrir áður en ráðist verður í framkvæmdir.
Ekki er talið ráðlegt að ráðast í sameiningu framhaldsskóla á Norðurlandi eystra. Ef skólarnir eru ekki sjálfráða um eigin mál mun það að öllum líkindum verða til þess að draga úr krafti þeirra til að auka námsframboð sitt og sérstöðu og slíkt gæti leitt til atgervisflótta meðal starfsfólks. Með tímanum gæti þetta svo leitt til þess að hinir minni skólar leggist af í núverandi mynd. Mikilvægi þess að hafa framhaldsskólanám í boði í heimabyggð er gríðarlegt og ein af forsendum búsetu fyrir fjölskyldufólk á þéttbýlisstöðum.