Hugleiðingar og spurningar um ágengar jurtir í Norðurþingi.
Málsnúmer 201707058
Vakta málsnúmerSkipulags- og umhverfisnefnd - 18. fundur - 18.07.2017
Skipulags- og umhverfisnefnd hefur borist bréf frá Halldóri Valdimarssyni þar sem óskað er umfjöllunar skipulags- og umhverfisnefndar um ágengar jurtir í sveitarfélaginu. Spurt er hvort sveitarfélagið hafi mótað sér stefnu varðandi ágengar jurtir. Stendur til að hefta með einhverju móti framrás lúpínu yfir gróið land? Hefur sveitarfélagið mótað stefnu varðandi útbreiðslu skógarkerfils.
Til fundarins mætti undir þessum lið garðyrkjustjóri Norðurþings, Smári Jónas Lúðvíksson.
Til fundarins mætti undir þessum lið garðyrkjustjóri Norðurþings, Smári Jónas Lúðvíksson.
Útbreiðsla skógarkerfils og spánarkerfils hefur vaxið hröðum skrefum í nágrenni Húsavíkur á undanförnum áratug. Á fundi nefndarinnar þann 14. júní 2016 lagði skipulags- og umhverfisnefnd það til við framkvæmdanefnd að unnið yrði að útrýmingu kerfils við gróðurstöð sveitarfélagsins við Ásgarðsveg og jafnframt yrði útbreiðsla kerfils á og við Húsavík kortlögð árið 2016. Síðan þá hefur kerfillinn ítrekað verið sleginn við gróðurhúsin en kortlagningu útbreiðslu hans er ekki lokið.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur áherslu á að reynt verði að takmarka útbreiðslu kerfilstegundanna tveggja í landi Norðurþings sem kostur er með það að langtíma markmiði að útrýma þeim úr bæjarlandinu. Til að svo megi verða þarf að áætla árlega fjármuni til verksins. Jafnframt leggur nefndin til að íbúar Norðurþings verði hvattir til að uppræta kerfil í sínu nágrenni og bjóða þeim lán á verkfærum til sláttar á kerfli. Ennfremur verði íbúar hvattir til að hindra framgang lúpínu þar sem hún stefnir í að leggja undir sig berjalönd eða annað mikilvægt gróðurlendi.