Fara í efni

Staða flugsamgangna til Húsavíkur

Málsnúmer 201901056

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Norðurþings - 88. fundur - 22.01.2019

Flugumferð til Húsavíkur um flugvöllinn í Aðaldal hefur verið mikil og aukið bæði lífsgæði fólks og eflt atvinnulífið á svæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá Flugfélaginu Erni fóru um 16 þús. manns um flugvöllinn á árinu 2018, en sá fjöldi ber þess vitni að mikil eftirspurn er eftir þjónustunni. Fram hefur komið í máli forsvarsmanna Flugfélagsins Ernis að fjárhagsstaða félagsins sé frekar þung um þessar mundir og mun sú staða hafa áhrif á fjölda flugferða á áætlun félagsins bæði til Húsavíkur og Vestmannaeyja. Staða innanlandsflugsins til Húsavíkur er af þessum sökum til umræðu í sveitarstjórn.

Til máls tóku: Kristján og Bergur.

Sveitarstjórn Norðurþings leggur fram eftirfarandi bókun:
Sveitarstjórn lýsir yfir miklum áhyggjum af því ef Flugfélagið Ernir þarf að bregðast við vanda félagsins með fækkun áætlunarferða til Húsavíkur og Vestmannaeyja. Brýnt er að fundin verði lausn á þeirri stöðu sem uppi er og að kyrrsetningu nýrrar flugvélar fyrirtækisins verði aflétt svo hún megi nýtast viðskiptavinum félagsins hið fyrsta. Til framtíðar er brýnt að búið verði þannig um hnútana af hálfu ríkisins að rekstrarumhverfi flugfélaga í innanlandsflugi verði eflt gegnum m.a. aukin framlög á fáfarnari leiðir auk t.d. upptöku á svokallaðri „skoskri leið“ eins skjótt og verða má. Sú leið mun auðvelda íbúum landsbyggðanna að taka flugið, svo um munar, á sama tíma og það treystir innanlandsflugið í sessi sem raunverulegan samgönguvalkost í landinu.

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að koma bókuninni á framfæri við hlutaðeigandi aðila.