Fara í efni

Sveitarstjórn Norðurþings

88. fundur 22. janúar 2019 kl. 16:15 - 19:20 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Örlygur Hnefill Örlygsson aðalmaður
  • Kristján Þór Magnússon aðalmaður
  • Helena Eydís Ingólfsdóttir aðalmaður
  • Silja Jóhannesdóttir aðalmaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason aðalmaður
  • Hrund Ásgeirsdóttir aðalmaður
  • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir aðalmaður
  • Hafrún Olgeirsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Berglind Jóna Þorláksdóttir Ritari
  • Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Berglind Jóna Þorláksdóttir skrifstofu- og skjalastjóri
Dagskrá

1.Fjölskylduráð - 16

Málsnúmer 1812003FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 16. fundar fjölskylduráðs Norðurþings.
Til máls tók undir fundargerðinni í heild: Hrund.

Fundargerðin er lögð fram til kynningar.

2.Byggðarráð Norðurþings - 278

Málsnúmer 1901006FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 278. fundar byggðarráðs Norðurþings.
Fundargerðin er lögð fram til kynningar.

3.Byggðarráð Norðurþings - 277

Málsnúmer 1901002FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 277. fundar byggðarráðs Norðurþings.
Fundargerðin er lögð fram til kynningar.

4.Byggðarráð Norðurþings - 276

Málsnúmer 1812008FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 276. fundar byggðarráðs Norðurþings.
Fundargerðin er lögð fram til kynningar.

5.Orkuveita Húsavíkur ohf - 187

Málsnúmer 1901005FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 187. fundar Orkuveitu Húsavíkur ohf.
Til máls tók undir lið 5 "Stefnumótun fyrir Orkuveitu Húsavíkur ohf.": Helena, Hjálmar, Bergur og Kristján.

Helena leggur fram eftirfarandi tillögu:
Nú þegar undirbúningur stefnumótunar fyrir Orkuveitu Húsavíkur fer í hönd telur undirrituð rétt að í stefnumótunarvinnunni verði fjallað um kosti og galla núverandi rekstrarforms Orkuveitu Húsavíkur ohf. sem og kosti og galla annarra leiða við rekstur veitustarfsemi. Ástæðan er ekki að uppi séu áform um að breyta rekstarforminu heldur til staðfestingar á að Orkuveita Húsavíkur ohf. sem er í eign Norðurþings sé í því rekstrarformi sem best hentar fyrir þá starfsemi sem sannarlega fer fram innan fyrirtækisins.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu Helenu.




Fundargerðin er lögð fram til kynningar.

6.Orkuveita Húsavíkur ohf - 186

Málsnúmer 1812010FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 186. fundar Orkuveitu Húsavíkur ohf.
Fundargerðin er lögð fram til kynningar.

7.Orkuveita Húsavíkur ohf - 185

Málsnúmer 1812007FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 185. fundar Orkuveitu Húsavíkur ohf.
Fundargerðin er lögð fram til kynningar.

8.Skipulags- og framkvæmdaráð - 20

Málsnúmer 1901003FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 20. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings.
Fundargerðin er lögð fram til kynningar.

9.Skipulags- og framkvæmdaráð - 19

Málsnúmer 1812009FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 19. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings.
Fundargerðin er lögð fram til kynningar.

10.Skipulags- og framkvæmdaráð - 18

Málsnúmer 1812002FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 18. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings.
Til máls tók undir lið 15 "Kæra Gentle Giants hvalaferða ehf. vegna framkvæmda við Hafnarstétt 13": Kristján, Hjálmar, Örlygur, Silja, Kolbrún Ada, Bergur og Helena.

Kristján leggur fram eftirfarandi bókun:
Í ljósi óvæginnar umfjöllunar forsvarsmanns Gentle Giants - Hvalaferða ehf. m.a. um skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings í Víkurblaðinu þann 17.1.2019 vill undirritaður árétta eftirfarandi.
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. september 2018 kærði Gentle Giants - Hvalaferðir ehf., ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings frá 6. september 2018 um að óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 skuli fjarlægðar og gengið frá röskuðu landi fyrir 20. september sama mánaðar. Deilt var um lögmæti þessarar ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa um að hlaðinn steinveggur utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 skyldi fjarlægður og gengið frá röskuðu landi og einnig um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 25. september um að fjarlægja skuli nefndan vegg á kostnað lóðarhafa.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar, sem er endanleg, lá fyrir 13. desember sl.. Þar kemur skýrt fram að umræddur veggur er reistur utan heimilaðrar staðsetningar, sem þó hafði verið liðkað fyrir um að mætti standa utan lóðamarka, við afgreiðslu erindis frá Gentle Giants um frágang lóðar. Ítrekað hafði verið í þrígang af skipulags- og umhverfisnefnd og það staðfest í sveitarstjórn samhljóða hverjar heimildir fyrirtækisins voru til frágangsins. Mátti forsvarsmanni Gentle Giants því vera ljóst að sveitarfélagið var ekki tilbúið að veita frekari heimildir til að byggja utan lóðarmarka og inn á land sveitarfélagsins. Því miður er hinn reisti veggur hvorki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins né ítrekaða afgreiðslu nefnda sveitarfélagsins og sveitarstjórnar. Enda kemst úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála að því að um óleyfisframkvæmd sé að ræða. Byggingarfulltrúa var sannarlega heimilt að grípa til þeirra úrræða sem finna má í lögum um mannvirki nr. 160/2010 og fara fram á að veggurinn yrði fjarlægður og jarðrask afmáð, sbr. 2. mgr. 55. gr. framangreindra laga, á kostnað lóðarhafa.
Ennfremur er tekið fram í úrskurðinum að ekki verði séð að rannsókn málsins hafi verið áfátt af hálfu skipulags- og byggingarfulltrúa eða að brotið hafi verið gegn andmælarétti kæranda við meðferð þess, enda var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum, sem og hann gerði. Þá féllst úrskurðarnefndin heldur ekki á að rökstuðningi fyrir ákvörðuninni hafi verið áfátt eða að ekki hafi verið gætt meðalhófs, þegar höfð er hliðsjón af málsatvikum. Í úrskurði nefndarinnar er skýrt kveðið á um að ekki hafi verið um að ræða vanhæfi byggingarfulltrúa í málinu eins og kærandi reyndi að færa rök fyrir og ekkert af málsframvindu ráðið sem renni stoðum undir ályktun um að óvild hafi ráðið för gagnvart forsvarsmanni Gentle Giants eða fyrirtækinu sem slíku þegar umræddar ákvarðanir voru teknar. Úrskurðarnefndin kvað því upp sinn dóm að ekki væru fyrir hendi þeir ágallar á efni eða málsmeðferð hinna kærðu ákvarðana sem raskað gátu gildi þeirra og var því kröfu þess efnis alfarið hafnað.
Það er eitt að aðilar séu ósáttir við ákvarðanir sveitarstjórnar og gagnrýni þær þá með uppbyggilegum hætti en það er ekki hægt að sitja undir því hljóðalaust þegar forsvarsmenn jafn öflugra fyrirtækja og Gentle Giants - Hvalaferða ehf. bera uppá starfsmenn sveitarfélagsins jafn alvarlegar ávirðingar um illkvittni, heift og órökstuddar geðþóttaákvarðanir eins og þær sem lesa má í ofangreindu Víkurblaði, þegar fyrir liggur að slíkt stenst enga skoðun sbr. þann úrskurð sem vitnað er til hér að ofan. Sveitarstjórn ætlast til að þeim ákvörðunum sem teknar eru í nefndum og ráðum og staðfestar eru í sveitarstjórn, í þessu tilviki í þrígang, sé fylgt eftir af starfsmönnum sveitarfélagsins. Jafnframt að þeir sinni störfum sínum í samræmi við lög og reglugerðir sem gilda um störf þeirra og þá málaflokka sem þeir starfa að hverju sinni. Það var gert af skipulags- og byggingarfulltrúa í þessu máli eins og komist er að niðurstöðu um í úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Bent skal á að allan úrskurðinn má lesa hér: http://uua.is/?c=verdic&id=1698

Helena, Kolbrún Ada, Silja og Örlygur Hnefill tóku undir bókun Kristjáns.



Fundargerðin er lögð fram til kynningar.

11.Fjölskylduráð - 19

Málsnúmer 1901004FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 19. fundar fjölskylduráðs Norðurþings.
Fundargerðin er lögð fram til kynningar.

12.Fjölskylduráð - 18

Málsnúmer 1901001FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 18. fundar fjölskylduráðs Norðurþings.
Fundargerðin er lögð fram til kynningar.

13.Fjölskylduráð - 17

Málsnúmer 1812006FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 17. fundar fjölskylduráðs Norðurþings.
Til máls tók undir lið 5 "Forvarnir í Norðurþingi": Hjálmar, Kolbrún Ada, Örlygur, Kristján og Helena.

Hjálmar Bogi leggur fram eftirfarandi tillögu:
Sveitarstjórn telur mikilvægt að huga að forvörnum í víðu samhengi og virkja samtal allra sem koma að forvörnum í starfi sínu. Sérstök áhersla verði lögð á forvarnir fyrir börn og ungmenni.
Sveitarstjórn leggur til að forvarnarhópur verði starfandi í sveitarfélaginu og hlutverk hópsins skilgreint í takt við tíðarandann. Sömuleiðis að málinu verði vísað til Fjölskylduráðs til frekari úrvinnslu.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu Hjálmars.



Til máls tók undir lið 3 "Álaborgarleikarnir sumarið 2019": Helena, Hjálmar og Bergur.



Fundargerðin er lögð fram til kynningar.

14.Staða flugsamgangna til Húsavíkur

Málsnúmer 201901056Vakta málsnúmer

Flugumferð til Húsavíkur um flugvöllinn í Aðaldal hefur verið mikil og aukið bæði lífsgæði fólks og eflt atvinnulífið á svæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá Flugfélaginu Erni fóru um 16 þús. manns um flugvöllinn á árinu 2018, en sá fjöldi ber þess vitni að mikil eftirspurn er eftir þjónustunni. Fram hefur komið í máli forsvarsmanna Flugfélagsins Ernis að fjárhagsstaða félagsins sé frekar þung um þessar mundir og mun sú staða hafa áhrif á fjölda flugferða á áætlun félagsins bæði til Húsavíkur og Vestmannaeyja. Staða innanlandsflugsins til Húsavíkur er af þessum sökum til umræðu í sveitarstjórn.

Til máls tóku: Kristján og Bergur.

Sveitarstjórn Norðurþings leggur fram eftirfarandi bókun:
Sveitarstjórn lýsir yfir miklum áhyggjum af því ef Flugfélagið Ernir þarf að bregðast við vanda félagsins með fækkun áætlunarferða til Húsavíkur og Vestmannaeyja. Brýnt er að fundin verði lausn á þeirri stöðu sem uppi er og að kyrrsetningu nýrrar flugvélar fyrirtækisins verði aflétt svo hún megi nýtast viðskiptavinum félagsins hið fyrsta. Til framtíðar er brýnt að búið verði þannig um hnútana af hálfu ríkisins að rekstrarumhverfi flugfélaga í innanlandsflugi verði eflt gegnum m.a. aukin framlög á fáfarnari leiðir auk t.d. upptöku á svokallaðri „skoskri leið“ eins skjótt og verða má. Sú leið mun auðvelda íbúum landsbyggðanna að taka flugið, svo um munar, á sama tíma og það treystir innanlandsflugið í sessi sem raunverulegan samgönguvalkost í landinu.

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að koma bókuninni á framfæri við hlutaðeigandi aðila.

15.Skýrsla sveitarstjóra

Málsnúmer 201605083Vakta málsnúmer

Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri fer yfir helstu atriði úr starfi sveitarfélagsins síðustu vikur.
Til máls tók: Kristján.

Lagt fram til kynningar.

16.Samningamál Völsungs 2019-

Málsnúmer 201809156Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til staðfestingar samstarfssamningur milli Norðurþings og Íþróttafélagsins Völsungs.
Til máls tóku: Helena og Bergur.

Sveitarstjórn Norðurþings fagnar nýjum samstarfssamningi milli Norðurþings og Íþróttafélagsins Völsungs. Með samningnum sem er til eins árs er stigið stórt skref í átt að því sem félagið hefur óskað eftir til að koma í framkvæmd afar metnaðarfullum áformum sínum um rekstur og starfsemi félagsins. Samningurinn felur í sér umtalsverða hækkun á framlagi Norðurþings til félagsins og að tiltekin verkefni eru færð frá félaginu til sveitarfélagsins. Við það skapast tækifæri innan félagsins til að vinna enn betur að metnaðarfullri uppbygging félagsstarfsins.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi samning.

17.Friðlýsing vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum

Málsnúmer 201810124Vakta málsnúmer

Sveitarstjóri hefur óskað eftir því að mál 201810124 er varðar fyrirhugaða friðlýsingartillögu Jökulsár á Fjöllum verði tekið aftur til umfjöllunar í sveitarstjórn Norðurþings í ljósi umræðna og áhyggja ýmissa aðila í sveitarfélaginu af því hve vítt má túlka orðalag tillögunnar er snýr að áhrifum friðlýsingarinnar á orkuvinnslu innan hins afmarkaða svæðis sem lagt er til að friðlýst verði. Málið hefur verið til kynningar hjá Umhverfisstofnun þar sem tillaga liggur fyrir að friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum á grundvelli flokkunar svæðisins í verndarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar, sbr. ályktun Alþingis nr. 13/141, frá 14. janúar 2013. Í fyrirliggjandi tillögu að friðlýsingu svæðisins kemur m.a. fram að tilgangur og markmið friðlýsingarinnar sé að vernda vatnasvið Jökulsár á Fjöllum: 12 Arnardalsvirkjun og 13 Helmingsvirkjun gegn orkuvinnslu.
Til máls tóku: Kristján, Hjálmar, Bergur, Helena, Silja, Kolbrún Ada og Örlygur.

Meirihlutinn leggur fram eftirfarandi bókun:
Sveitarstjórn Norðurþings vill ítreka fyrri bókun frá því 30.10.2018 um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum gagnvart vatnsaflsvirkjunum tilgreindum í rammaáætlun. Jökulsá á Fjöllum er eitt af höfuðdjásnum íslenskrar náttúru og er það mat sveitarstjórnar að náttúrufarsleg og hagræn verðmæti Jökulsár verði best nýtt til ókominnar framtíðar með öðrum hætti en með vatnsaflsvirkjunum. Sveitarstjórn vill þó koma á framfæri athugasemd við þá tillögu að auglýsingu friðlýsingarinnar sem lögð hefur verið fram af Umhverfisstofnun. Á umræðuvettvangi íbúa í Kelduhverfi og Öxarfirði hafa m.a. komið fram áhyggjur af því að friðlýsingaráformin geti haft áhrif á möguleika á nýtingu jarðvarma úr borholum sem eru á söndunum fyrir botni Öxarfjarðar, t.d. til hitaveitu á svæðinu, nýtingu borhola við Bakkahlaup til virkjunar gufuafls eða aðrar eðlilegar landnytjar innan fyrirhugaðs svæðis sem friðlýsingin tekur til. Með vísan til þessara ábendinga íbúa bendir sveitarstjórn Umhverfisstofnun á að fyrir liggur að umrædd friðlýsingartillaga er lögð fram á grundvelli laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun og þingsályktunar 13/141. Til að fyrirbyggja mistúlkun er lagt til að orðalag auglýsingar friðlýsingarinnar verði betrumbætt þannig að þetta verði dregið alveg skýrt fram og það tilgreint sérstaklega að hér sé verið að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu vatnsafls 10 MW eða stærri. Enda er tilgangur þessara laga ekki að friðlýsa gagnvart annarri orkuvinnslu eins og fyrr segir. Sveitarstjórn Norðurþings leggur áherslu á að við friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum útfrá þeim skilgreindu markmiðum sem liggja friðuninni til grundvallar verði þess gætt að í engu verði gengið á núverandi né mögulega framtíðarnýtingu auðlinda svæðisins neðan gljúfra, hvort sem er til jarðvarmaorkuvinnslu, né annarrar nýtingar. Þá leggur sveitarstjórn sömuleiðis ríka áherslu á að áður en frá friðlýsingunni verði gengið verði haft samráð við landeigendur og aðra beina hagsmunaaðila á svæðinu um friðlýsingarskilmálana og endanlega afmörkun hins friðlýsta svæðis.

Kolbrún Ada Gunnarsdóttir
Helena Eydís Ingólfsdóttir
Kristján Þór Magnússon
Silja Jóhannesdóttir
Örlygur Hnefill Örlygsson



Undirrituð leggja til að athugasemd verkefnisstjórnar Öxarfjörður í sókn verði athugasemd sveitarstjórnar vegna fyrirhugaðrar friðlýsingar vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum:
Verkefnisstjórnin fagnar því að fram sé komin tillaga um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum gagnvart byggingu Arnardalsvirkjunar og Helmingsvirkjunar í ánni. Tilgangur friðlýsingarinnar byggist á grundvelli verndarflokks þingsályktunar nr. 13/141, frá 14. janúar 2013, að friðlýsa vatnasvið Jökulsár á Fjöllum: 12 Arnardalsvirkjun og 13 Helmingsvirkjun 1 eins og segir í friðlýsingartillögunni. Forsendur friðlýsingarinnar eru því skýrar en jafnframt skilyrtar skv. 53. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 hvar segir svo um friðlýsingu svæða í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar: „Svæði sem falla í verndarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar sem Alþingi hefur samþykkt skal friðlýsa gagnvart orkuvinnslu. Friðlýsingin felur í sér að orkuvinnsla er óheimil á viðkomandi svæði.“

Í ljósi ofanritaðs telur verkefnisstjórnin að svæðisafmörkun friðlýsingartillögunnar sé of viðtæk þar sem skilja mætti sem svo skv. orðanna hljóðan að öll orkuvinnslu innan friðlýsingarmarkanna eins og þau eru skilgreind í auglýsingunni, sem eru farvegur árinnar ásamt allt að 1 km breiðri landræmu allt til sjávar, sé með öllu óheimil. Í stað þess að styðjast við almenna nálgun um afmörkun verndarsvæðisins skv. skilgreiningu faghóps 1 í 2. áfanga rammaáætlunar telur verkefnisstjórnin að taka verði tilliti til aðstæðna og þeirra hagsmuna sem á svæðinu eru, ekki síst á söndunum fyrir botni Öxarfjarðar. Þar er bæði um að ræða orkuvinnslu úr jarðhita sem fellur innan friðlýsingarmarkanna eins og þau eru skilgreind í auglýsingunni en einnig ýmis önnur landnotkun sem með engu tengjast því að áin verði friðlýst gagnvart vatnsaflsvirkjunarkostunum tveimur sem tilgreindir eru; Arnardalsvirkjun og Helmingsvirkjun. Sem dæmi má nefna að um árabil hefur verið horft til ræktunar og/eða eldis af ýmsu tagi þar sem jarðhitinn ásamt öðrum aðstæðum í sandinum yrðu nýtt til matvælaframleiðslu. Þessi áhersla endurspeglast m.a. vel í einu af fjórum megin markmiðum byggðaeflingarverkefnisins Öxarfjarðar í sókn sem er framsækni í matvælaframleiðslu, auk að minnsta kosti þriggja starfsmarkmiða sem því tengjast. Annað skilgreint megin markmið verkefnisins er framandi áfangastaður og þar undir eru skilgreind tvö starfsmarkmið sem þau friðlýsingarmörk sem eru í friðlýsingartillögunni myndu útiloka eða a.m.k. torvelda til muna. Annars vegar er um að ræða að „ljúka kortlagningu á vatnsbólum og uppsprettum á svæðinu ásamt greiningu á nýtingu jarðhita til rafmagnsframleiðslu, baðstaða og/eða ræktunar.“ Hins vegar „ að hanna baðstað sem nýtir jarðhita fyrir árslok 2019.“

Fram kemur á vef Umhverfisstofnunar að við undirbúning að friðlýsingu þeirra landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti í verndarflokki rammaáætlunar sé lögð fram tillaga að friðlýsingarskilmálum þar sem fram komi að orkuvinnsla sem fellur undir lög um verndar- og orkunýtingaráætlun sé óheimil. Jafnframt að ekki sé gert ráð fyrir að friðlýsingarskilmálar taki til annarra atriða eða að landvarsla eða sérstök umsjón sé á viðkomandi svæðum. Skv. þessu skulu friðlýsingarskilmálar í þessu tilviki einungis taka til tveggja ofangreindra virkjanakosta, en hvorki til orkuvinnslu í smærri einingum né annarrar nýtingar. Að mati verkefnisstjórnar gengur sú tillaga sem fyrir liggur mun lengra en þau yfirlýstu markmið sem að baki friðlýsingartillögunni liggja.
Samantekið gengur friðlýsingartillagan hvað varðar svæðisafmörkun og inntak því að mati verkefnisstjórnar mun lengra en nauðsynlegt er til að ná fram yfirlýstu markmiði og gæti hún því brotið í bága við eina af þremur meginreglum stjórnsýslunnar, meðalhófsregluna, sem kveður skýrt á um það að til að ná skilgreindu markmiði skuli beita því úrræði sem minnstri röskun veldur á hagsmunum borgaranna. Einnig skulu stjórnvöld gæta hófs við beitingu þess úrræðis sem valið hefur verið og ekki má beita því á harkalegri hátt en nauðsynlegt er.

Verkefnisstjórn Öxarfjarðar í sókn leggur áherslu á að við friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum útfrá þeim skilgreindu markmiðum sem liggja friðuninni til grundvallar verði þess gætt að í engu verði gengið á núverandi né mögulega framtíðarnýtingu auðlinda svæðisins neðan gljúfra, hvort sem er til jarðvarmaorkuvinnslu, né annarrar nýtingar. Því leggur verkefnisstjórnin til að skýrt verði kveðið á um það í friðlýsingarskilmálum að friðlýsingin taki einungis til þeirra skilgreindu virkjanakosta sem nefndir eru í tillögunni eða a.m.k. verði friðlýsingin skilyrt við vatnsaflsvirkjanir sem falla undir rammaáætlun og eðli máls í þessu tilviki, þ.e. virkjana 10 MW eða stærri. Einnig að friðlýsingarmörkin verði dregin þannig að þau nái ekki til árinnar eftir að hún kemur norður úr gljúfrunum. Fyrir utan beina hagsmuni sem verkefnisstjórnin telur vera af þeim mörkum bendir hún á að það sé erfiðleikum bundið að skilgreina friðlýsingarsvæðið þar sem gljúfrum árinnar sleppir þar sem farvegur hennar er breytilegur á söndunum. Að lokum leggur verkefnisstjórnin ríka áherslu á að áður en frá friðlýsingunni verði gengið verði haft samráð við landeigendur og aðra beina hagsmunaaðila á svæðinu um friðlýsingarskilmálana og endanlega afmörkun hins friðlýsta svæðis.

Virðingafyllst
Bergur Elías Ágústsson
Hafrún Olgeirsdóttir
Hjálmar Bogi Hafliðason
Hrund Ásgeirsdóttir

Tillagan er samþykkt með atkvæðum Bergs, Hafrúnar, Hjálmars og Hrundar.
Helena, Kolbrún Ada, Kristján, Silja og Örlygur sátu hjá.

18.Verklagsreglur, viðauki við fjárhagsáætlun.

Málsnúmer 201811055Vakta málsnúmer

Á 278. fundi byggðarráðs var eftirfarandi bókað;

Byggðarráð vísar reglunum til staðfestingar í sveitarstjórn.
Til máls tók: Kristján.

Sveitarstjórn staðfestir samhljóða fyrirliggjandi reglur.

19.Fasteignagjöld 2019

Málsnúmer 201901023Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til staðfestingar breyting á fjölda gjaldadaga fasteignagjalda árið 2019, samkvæmt reglugerð nr. 1160 frá 2005 þar sem kveður á um að sveitarstjórn ákveði fjölda gjalddaga. Á 278. fundi byggðarráðs hvar tillaga þess efnis að fjölga gjalddögunum fasteignagjalda árið 2019 úr sjö í níu var samþykkt.
Til máls tók: Kolbrún Ada.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fjölgun gjalddaga fasteignagjalda árið 2019 úr sjö í níu.

20.Reglur um afslátt á fasteignaskatti

Málsnúmer 201612166Vakta málsnúmer

Á 278. fundi byggðarráðs voru uppfærðar reglur og uppfærð tekjuviðmið reglnanna um afslátt á fasteignaskatti samþykktar. Málið liggur því til staðfestingar í sveitarstjórn, sakmvæmt reglugerð nr. 1160 frá 2005 þar sem kveður á um að sveitarstjórn ákveði reglur um afslátt á fasteignaskatti.
Til máls tók: Kristján.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi reglur um afslátt á fasteignaskatti.

21.Arctic Edge Consulting ehf sækir um lóð að Steinagerði 5

Málsnúmer 201812057Vakta málsnúmer

Á 19. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað;

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að Arctic Edge Consulting ehf. verði boðin lóðin að Steinagerði 5.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs um að úthluta Naustalæk ehf. áður Arctic Edge Consulting ehf. lóðinni.

22.Arctic Edge Consulting ehf sækir um lóð að Urðargerði 5

Málsnúmer 201811080Vakta málsnúmer

Á 19. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað;

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að Arctic Edge Consulting ehf. verði boðin lóðin að Urðargerði 5.
Til máls tók: Silja.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs um að úthluta Naustalæk ehf. áður Arctic Edge Consulting ehf. lóðinni.

23.Frístundastyrkir 2019

Málsnúmer 201811067Vakta málsnúmer

Á 18. fundi fjölskylduráðs var eftirfarandi bókað;

Fjölskylduráð fjallaði um reglur um frístundastyrki í Norðurþingi 2019 og uppfærði þær. Fjölskylduráð samþykkir reglurnar og vísar þeim til samþykktar í sveitarstjórn Norðurþings.
Til máls tóku: Helena og Kolbrún Ada.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða reglur um Frístundastyrki 2019.

24.Norðurþing, kosning í nefndir til eins árs, fjögurra ára og tilnefningar á aðalfundi 2018-2022

Málsnúmer 201806044Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggja eftirfarandi breytingar á ráðum sveitarfélagsins:


Örlygur Hnefill Örlygsson kemur inn sem aðalmaður og formaður fjölskylduráðs í stað Helenu Eydísar Ingólfsdóttur frá og með 23.1.2019.

Kristinn Jóhann Lund kemur inn sem aðalmaður og varaformaður í skipulags- og framkvæmdaráð í stað Örlygs Hnefils Örlygssonar frá og með 23.1.2019.

Birna Ásgeirsdóttir kemur inn sem varamaður í skipulags- og framkvæmdaráð í stað Kristins Jóhanns Lund frá og með 23.1.2019.

Guðmundur Halldór Halldórsson kemur inn sem aðalmaður í skipulags- og framkvæmdaráð í stað Sifjar Jóhannesdóttur frá og með 23.1.2019.

Nanna Steina Höskuldsdóttir kemur inn sem varamaður í skipulags- og framkvæmdaráð í stað Röðuls Reys Kárasonar frá og með 23.1.2019.


Fyrir sveitarstjórn liggja eftirfarandi breytingar á ráðum innan Norðurþings hjá fulltrúum V - lista vegna tímabundis leyfis Óla Halldórssonar, frá 1. febrúar 2019 til 1. maí 2019.


Í byggðarráð kemur Kolbrún Ada Gunnarsdóttir inn sem formaður og Berglind Hauksdóttir sem varamaður.

Í fjölskylduráði kemur Berglind Hauksdóttir inn sem aðalmaður og Stefán Leifur Rögnvaldsson sem varamaður.

2. varaforseti sveitarstjórnar í leyfi Óla Halldórssonar til 1. maí 2019 verði Kolbrún Ada Gunnarsdóttir.

Landsþing SÍS - Varamaður kemur inn Kolbrún Ada Gunnarsdóttir
Eyþing aðalfundur - Kolbrún Ada Gunnarsdóttir kemur inn sem aðalmaður og Berglind Hauksdóttir sem varamaður
Héraðsnefnd Þingeyinga bs. fulltrúaráð - Kolbrún Ada Gunnarsdóttir kemur inn sem aðalmaður og Berglind Hauksdóttir sem varamaður
Menningarmiðstöð Þingeyinga (MMÞ) fulltrúaráð - Kolbrún Ada Gunnarsdóttir kemur inn sem aðalmaður og Berglind Hauksdóttir sem varamaður
Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga bs. fulltrúaráð - Kolbrún Ada Gunnarsdóttir kemur inn sem aðalmaður og Berglind Hauksdóttir sem varamaður


Til máls tók: Hjálmar.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi breytingar.

25.Beiðni um tímabundið leyfi frá sveitarstjórn Norðurþings

Málsnúmer 201810117Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur beiðni frá Óla Halldórssyni um áframhaldandi tímabundnu leyfi frá störfum í sveitarstjórn Norðurþings. Tímabilið verði frá 1. febrúar 2019 til 1. maí 2019.
Sveitarstjórn samþykkir beiðnina samhljóða.

Fundi slitið - kl. 19:20.