Fara í efni

Áskorun á heilbrigðisráðherra að fjölga hjúkrunarrýmum á Húsavík

Málsnúmer 202010051

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Norðurþings - 107. fundur - 20.10.2020

Kristján Þór Magnússon óskar eftir að sveitarstjórn skori á heilbrigðisráðherra að fjölga hjúkrunarrýmum í Dvalarheimilinu Hvammi um sex rými á næstu þremur árum.

Nauðsynleg uppbygging nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík er nú í farvatninu og er sigurtillaga hönnunarsamkeppni um húsið nú í lokahönnun. Stefnt er að útboði verksins á næsta ári og að framkvæmdir hefjist síðla árs 2021. Skv. verkáætlun verður nýtt heimili tilbúið til notkunar á fyrri hluta árs 2024.

Skv. upplýsingum frá framkvæmdastjórn Dvalarheimilisins þá er hlutfallslegur fjöldi hjúkrunarrýma á hverja 1000 aldraða meiri hér en á landsvísu. Með tilkomu hins nýja heimilis er ráðgert að hjúkrunarrýmum fjölgi um sex. Fram kemur í þingskjali 0876 að staðan er hinsvegar sú í dag að biðtími eftir hjúkrunarrými er hvað lengstur á Húsavík samanborið við aðra staði á landinu; á HSN 694 dagar og 182 dagar á Hvammi. Á biðlista í lok sl. árs voru á HSN 4 einstaklingar og í Hvammi 5. Í dag eru 10 einstaklingar á biðlista eftir hjúkrunarrými á HSN og 12 í Hvammi.

Í ljósi þröngrar stöðu rekstrarins á dvalarheimilinu undanfarin misseri, m.a. vegna aukinna útgjalda sem Covid-19 faraldurinnn hefur haft í för með sér, er hér með skorað á heilbrigðisráðherra að flýta heimild Dvalarheimilisins Hvamms til að auka við hjúkrunarrými heimilisins svo þau verði öll komin í rekstur þegar nýtt hjúkrunarheimili verður tekið í gagnið. Að tvö ný hjúkrunarrými komist í rekstur nú um næstu áramót, tvö önnur um áramótin 2021-2022 og síðustu tvö áramótin 2022-2023. Yrði þetta mikilvægur liður í að bæta þjónustu við eldri aldurshópana á svæðinu sem og að bæta rekstrargrunn heimilisins.


Til máls tók: Kristján.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða áskorun á heilbriðgisráðherra.