Fara í efni

Samstarfsyfirlýsing Landsvirkjunar og Norðurþings um þróun bakkasvæðis sem vistvæns iðngarðs

Málsnúmer 202010109

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Norðurþings - 107. fundur - 20.10.2020

Fyrir sveitarstjórn liggur til samþykktar samstarfsyfirlýsing milli Norðurþings og Landsvirkjunar vegna greiningar á möguleikum þess að þróa iðnaðarsvæðið á Bakka sem vistvænan iðngarð (e. eco-industrial park) ásamt greingu á möguleikum ólíkra iðngreina til að styðja við frekari uppbyggingu orkuháðrar starfsemi á svæðinu samkvæmt markmiðum sveitarfélagsins.

Í samstarfsyfirlýsingunni segir ennfremur að til að styðja við uppbyggingu atvinnustarfsemi á Bakka hefur verið ráðist í umfangsmiklar innviðafjárfestingar sem gera það að verkum að Bakki er það iðnaðarsvæði landsins sem er hvað best í stakk búið til að standa undir frekari orkuháðri starfsemi.

Norðurþing hefur mótað sér þá sýn að heillavænlegt þykir að hefja formlegt samstarf við hagsmunahafa iðnaðarsvæðisins við að stuðla að frekari þróun atvinnustarfsemi á Bakka undir formerkjum sjálfbærrar þróunar í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Norðurþingi er mikið í mun að sú atvinnuuppbygging sem mun þróast á Bakka til næstu ára mæti bæði samfélagslegum-, umhverfislegum- og efnahagslegum kröfum sveitarfélagsins og stuðli þar með að aukinni sjálfbærni svæðisins í sem víðustum skilningi. Þannig getur áframhaldandi uppbygging á Bakka stutt jákvæða þróun samfélagsins í Norðurþingi og aukið viðnámsþrótt sveitarfélagsins.

Ofangreind markmið eru grunnstef í stefnu Landsvirkjunar og nýtingu þeirra auðlinda sem fyrirtækinu er trúað fyrir.

Á þessum grunni gera Norðurþing og Landsvirkjun með sér samkomulag um að stofna til samstarfs um frekari þróun og greiningu þess ramma sem nauðsynlegur er til að hægt sé að skilgreina Bakka sem vistvænan iðngarð samkvæmt ofangreindum markmiðum. Aðilar eru sammála um að setja á laggirnar sérstakan vinnuhóp, sem leiðir þá vinnu sem framundan er. Um kostnað og kostnaðarskiptingu vegna verkefnisins verður samið sérstaklega í kjölfar þessa samkomulags.
Til máls tóku: Kristján og Bergur.

Sveitarstjórn samþykkir samstarfsyfirlýsinguna samhljóða.