Atvinnuveganefnd: til umsagnar frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun, 322. mál.
Málsnúmer 202011117
Vakta málsnúmerByggðarráð Norðurþings - 347. fundur - 10.12.2020
Atvinnuveganefnd Alþingis óskar eftir umsögn um frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun,322. mál.
Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 11. desember nk.
Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 11. desember nk.
Í frumvarpi til laga um opinberan stuðning kemur fram að meginmarkmið laganna skuli vera að efla opinberan stuðning við nýsköpun á landinu með sveigjanlegu stuðningskerfi, sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf og hagaðila og áherslu á nýsköpun á landsbyggðinni. Þá er jafnframt ætlunin að skýra ábyrgð, einfalda verklag og forgangsraða opinberum stuðningi og þjónustu við atvinnulífið.
Í greingargerð sem fylgir frumvarpinu er fjallað um áherslu á stuðning við nýsköpun á landsbyggðinni. Þar er fjallað um nýjan verkefnasjóð fyrir nýsköpun í samstarfi við landshlutasamtök og sóknaráætlanir. Einnig er fjallað um sterka umgjörð stafrænna smiðja og mælanleg markmið um starfsemi þeirra. Einnig kemur fram að atvinnuþróun á landsbyggðinni kalli á nýjar áherslur í atvinnuuppbyggingu með áherslu á nýsköpun og frumkvöðlastarfs sem byggi á þekkingu, mannauði og tækifærum á hverjum stað fyrir sig.
Byggðarráð Norðurþings getur tekið undir framangreint, hvort tveggja meginmarkmið laganna og þá áherslu sem birtist í greinargerðinni um nýsköpun á landsbyggðinni. Byggðarráð telur þó að andi meginmarkmiðs lagafrumvarpsins og þau atriði greinargerðarinnar sem fjalla um nýsköpun á landsbyggðinni endurspeglist ekki nægilega vel í lagatextanum sjálfum. Frumvarpið nær því sem næst eingöngu yfir stofnun tækniseturs, tilgang þess og stjórnun.
Byggðarráð telur mikilvægt að skýra hvort starfrænar smiðjur (Fab Labs) verði eingöngu þar sem núverandi smiðjur eru staðsettar eða hvort þeim verður fjölgað. Þá er jafnframt mikilvægt að skýra hvort sveitarfélög, stofnanir, eins og rannsóknasetur, þekkingarsetur og símenntunarmiðstöðvar og atvinnulíf ýmist hvert fyrir sig eða í samstarfi muni njóta stuðnings við að byggja upp og reka a.m.k. tímabundið, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur með í það minnsta lágmarksútbúnaði stafrænna smiðja. Hlutverk samfélags í svæðisbundinni þróun er mikilvægt og jafnframt að innan þeirra sé jarðvegur sem fóstrar nýsköpunar og frumkvöðlastarf. Dæmin sýna að vel er hægt að reka stafrænar smiðjur í minni byggðum þar sem frumkvöðlar sem eru að stíga sín fyrstu skref í þróun vöru eða viðskiptahugmyndar eiga sinn tímabundna vinnustað. Stafrænar smiðjur eru mikilvægur hlekkur í undirbúningi vinnumarkaðar sem og námsmanna fyrir breytingar sem óhjákvæmilega fylgja fjórðu iðnbyltingunni. Þegar best tekst til spilar saman atvinnulíf, fræðslu- og þekkingarstofnanir og samfélagið allt við þróun og framkvæmd atvinnuskapandi hugmynda.
Byggðarráð leggur til að fjallað verði um verkefnasjóð um nýsköpun á landsbyggðinni og umgjörð um stafrænar smiðjur í ákvæðum frumvarpsins en ekki greingargerðinni eingöngu.