Beiðni um umsögn vegna styrkingu á Kópaskerslínu 1
Málsnúmer 202205079
Vakta málsnúmerSkipulags- og framkvæmdaráð - 127. fundur - 14.06.2022
Skipulagsstofnun óskar umsagnar Norðurþings um styrkingu Kópaskerslínu 1 eins og henni er lýst í tilkynningu Landnets til Skipulagsstofnunar. Markmið framkvæmdarinnar er að auka afhendingaröryggi raforku á svæðinu. Framkvæmdin felst í grófum dráttum í því að styrkja Kópaskerslínu 1 á tveimur köflum, samtals um 8 km að lengd, með því að reisa stálmöstur í stað núverandi timburmastra. Ný möstur verða 3-5 m hærri en núverandi möstur. Möstrum mun fækka um 7-10 við þessar framkvæmdir. Fyrirliggjandi vegslóðar verða nýttir til framkvæmdanna sem kostur er, en þörf er á að styrkja þá og sumsstaðar að útbúa nýja. Efnistaka vegna lagfæringa slóða verður úr fyrirliggjandi efnistökusvæðum sem skilgreind eru í aðalskipulagi sveitarfélagsins.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings telur að framkvæmdinni, umhverfi hennar, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun sé fullnægjandi lýst í tilkynningu Landsnets. Framkvæmdin er háð framkvæmdaleyfi Norðurþings. Ráðið telur ekki tilefni til að gera kröfu um umhverfismat þessarar framkvæmdar.
Skipulags- og framkvæmdaráð - 136. fundur - 18.10.2022
Skipulagsstofnun hefur birt ákvörðun sína um matsskyldu vegna styrkingar Kópaskerslínu 1 á tveimur stöðum, annarsvegar með stálmöstrum á Reykjaheiði og hinsvegar með jarðstreng við Kópasker. Niðurstaða Skipulagsstofnunar er sú að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Tilkynning um ákvörðun Skipulagsstofnunar var lögð fram.