Fara í efni

Öldrunarráð Norðurþings

3. fundur 10. júní 2021 kl. 13:30 - 15:20 Stjórnsýsluhús Norðurþings
Nefndarmenn
  • Ólína Arnkelsdóttir Þingeyjarsveit
  • Fanney Hreinsdóttir deildarstjóri Félagsþjónustu Norðurþings
  • Jón Grímsson Norðurþingi
  • Jón Gunnþórsson Langanesbyggð
  • Lilja Skarphéðinsdóttir Norðurþingi
  • Smári Kárason Tjörneshreppi
  • Hólmfríður Ásdís Illugadóttir varamaður
  • Jónas Friðrik Guðnason Raufarhöfn boðaði forföll og Helgi Ólafsson Raufarhöfn mætti ekki. H.S.N. hefur ekki tilnefnt nýjan fulltrúa í stað Ragnhildar Þorgeirsdóttur.
Fundargerð ritaði: Hólmfríður Ásdís Illugadóttir

1) Áform um nýtt hjúkrunarheimili á Húsavík.

Kynning: Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings.
Hann var staddur í Reykjavík en notaður var fjarfundarbúnaður.
Kristján kynnti málið ýtarlega.Væntanlegt hjúkrunarheimili verður 4.500 m2 og verð per fermetra er áætlað á kr. 818 þúsund. Heildar kostnaður er áætlaður 3,7 milljarðar og þar af hlutur sveitafélaganna 880 milljónir króna, samtals.
Jarðvegsvinna hefst væntanlega nú í júlí og í janúar eða febrúar skýrist vonandi hver byggingarverktakinn verður. Verklok eru áætluð um áramótin 2023 – 24.
Vangaveltur urðu meðal fundarmanna um staðsetningu þessarar byggingar hvað öryggi varðaði, t.d. var minnst á jarðskjálfta og Kristján spurður út í þetta. Hann svaraði að staðsetningin hefði verið skoðuð mjög vel, og af þar tilbærum sérfræðingum og teldist örugg.
Húsnæðisúrræði voru rædd og t.d. hvað yrði gert við húsnæði Hvamms þegar nýtt hjúkrunarheimili tæki til starfa. Þetta er allt í athugun en í haust er áætlaður stór fundur með þátttöku allra aðildar sveitarfélaganna til að ræða þjónustu við eldra fólk heildstætt, þ.e. frá ýmsum sjónarhornum. Kristjáni var þökkuð kynningin og upplýsingarnar. Hann þakkaði fundarfólki fyrir fundinn og kvaddi að því loknu.
Áfram var rætt um þessi mál og Lilja Skarphéðinsdóttir hvatti til þess að hugsað yrði fyrir mismunandi búsetuúrræðum fyrir eldra fólk og var samhljómur um það mál algjör meðal fundarfólks. Hvammur var upphaflega byggður til að þjónusta eldra fólk og fundurinn leggur ríka áherslu á að svo verði áfram.


2) Lýðheilsuverkefni:
Lilja Skarphéðinsdóttir með framsögu.
Lilja ræddi hið frábæra heilsueflandi verkefni dr. Janusar Guðlaugssonar sem hann hefur komið á fót til heilsueflingar fyrir eldra fólk; fyrst í Reykjanesbæ og svo víðar með mjög svo sýnilegum árangri og þann áhuga sem Félag eldri borgara á Húsavík hefur sýnt því að sett verði á fót eitthvað svipað hér á svæðinu. Félagið fékk Janus m.a. til að koma til Húsavíkur og kynna verkefnið sl. vor. Rannsóknir Janusar sýna að það getur seinkað innlögn á hjúkrunarheimili um 3-5 ár ef einstaklingur stundar líkamsrækt og reglubundna hreyfingu ásamt hollu mataræði.
Jón Grímsson vakti athygli á stefnu sem H.S.Þ. hefur og nefnist „Æfa alla ævi“.Miðast hún við að vinna að því í samvinnu við íþrótta- og ungmennafélögin ásamt sveitarfélögum á sambandssvæðinu að efla heilbrigt líferni. Þessi stefna byggir á margvíslegum rannsóknum sem hafa verið gerðar og styðja jákvæð áhrif hreyfingar og skipulegs íþróttastarfs á lífsgæði fólks á öllum aldri. E.t.v. er verkefni H.S.Þ. til þess fallið að hægt væri að samtengj þjálfun á okkar svæði með íþróttakennurum sem starfa víða í sýslunum.
Fram kom að sums staðar kemur heilsugæslan að því að fylgjast reglubundið með heilsu eldra fólks ,t.d. á Þórshöfn, sem er til fyrirmyndar og þyrfti að vera hægt að bjóða sams konar þjónustu á hinum heilsugæslustöðvunm í héraðinu.
Fjölskylduráð Norðurþings hefur „Heilsueflandi verkefni“ nú til umfjöllunar en hægt gengur að fá niðurstöðu frá ráðinu.
Fleiri tóku til máls og tóku undir mikilvægi heilsueflingar og greindu sumir frá gangi mála í sinni heimabyggð. Ásdís minntist á lokun sundlaugarinnar í Reykjahlíð sem er mikið áfall fyrir lýðheilsu Mývetninga.


Önnur mál:
Hlutverk Öldungaráðs.
Ólína fór yfir málið og bar fram svohljóðandi tillögu til samþykktar.
„ Öldungaráð beinir því til sveitarstjórna að vísa málum er snerta hagsmuni eldra fólks sérstaklega, til kynningar til Öldungaráðs, áður en ákvarðanir eru teknar.“
Tillagan rædd og síðan samþykkt samhljóða.
Ólína þakkaði fólki fyrir fundarsetuna. Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið kl: 15:20
Hólmfríður Ásdís Illugadóttir, fundarritari.