Fara í efni

Aðalskipulag Norðurþings

Fyrstu skref í aðalskipulagsgerð fyrir Norðurþing Stefnumót við framtíðina Vinna við nýtt aðalskipulag fyrir Norðurþing hófst í apríl 2008. Í aðalskipulaginu verður sett fram framtíðarsýn fyrir sveitarfélagið í heild, sem nær til allra þeirra sviða sem sveitarfélagið starfar á, þ.e. umhverfis-, atvinnu-, félags- og menningarmála. Á grundvelli þeirrar framtíðarsýnar verður mótuð stefna um viðfangsefni eins og verndun náttúru- og menningarminja, nýtingu vatns, jarðhita og jarðefna, skógrækt, vega- og gatnakerfi og göngu- og reiðleiðir. Einnig verður mörkuð stefna um staðsetningu og einkenni íbúðarsvæða, frístundabyggðarsvæða, útivistar- og íþróttasvæða og svæða fyrir atvinnu- og menningarstarfsemi. Í aðalskipulagsverkefninu verður ennfremur lögð sérstök áhersla á  að setja fram skýrar áherslur um þróun og einkenni miðbæjar- og hafnarsvæðis Húsavíkur sem hjarta bæjarins og Norðurþings alls.

Fyrstu skref í aðalskipulagsgerð fyrir Norðurþing

Stefnumót við framtíðina

Vinna við nýtt aðalskipulag fyrir Norðurþing hófst í apríl 2008. Í aðalskipulaginu verður sett fram framtíðarsýn fyrir sveitarfélagið í heild, sem nær til allra þeirra sviða sem sveitarfélagið starfar á, þ.e. umhverfis-, atvinnu-, félags- og menningarmála. Á grundvelli þeirrar framtíðarsýnar verður mótuð stefna um viðfangsefni eins og verndun náttúru- og menningarminja, nýtingu vatns, jarðhita og jarðefna, skógrækt, vega- og gatnakerfi og göngu- og reiðleiðir. Einnig verður mörkuð stefna um staðsetningu og einkenni íbúðarsvæða, frístundabyggðarsvæða, útivistar- og íþróttasvæða og svæða fyrir atvinnu- og menningarstarfsemi. Í aðalskipulagsverkefninu verður ennfremur lögð sérstök áhersla á  að setja fram skýrar áherslur um þróun og einkenni miðbæjar- og hafnarsvæðis Húsavíkur sem hjarta bæjarins og Norðurþings alls.

Greiningarfundur með nefndum og sveitarstjórn

Skipulagsvinnan hófst með því að haldinn var fundur 17. apríl 2008 með öllum nefndum sveitarfélagsins og sveitarstjórn þar sem helstu viðfangsefni skipulagsvinnunnar voru greind með því að ræða styrkleika, veikleika, tækifæri og hindranir í umhverfis-, atvinnu- og velferðarmálum sveitarfélagsins.

Á fundinum fóru ráðgjafar hjá Alta yfir viðfangsefni aðalskipulags og nálgun við skipulagsvinnuna. Skipulagsferlið skiptist í fimm megin áfanga. Þeim fyrsta, gerð verkáætlunar, er lokið og unnið er að öðrum áfanga þar sem einkenni sveitarfélagsins eru kortlögð,staða mála greind og sett fram fyrstu drög að framtíðarsýn fyrir sveitarfélagið í heild og meginmarkmiðum stærstu málaflokka. Ráðgert er að þeim áfanga ljúki í byrjun hausts 2008. Í þriðja áfanga verður stefna mörkuð í öllum málaflokkum aðalskipulagsins og í fjórða áfanga verður sá stefna útfærð með ákvæðum um landnotkun og mannvirkjagerð. Gert er ráð fyrir að lokadrög að heildstæðri aðalskipulagstillaga liggi fyrir um mitt ár 2009 og endanlegt staðfest aðalskipulag í lok þess árs.

Gagnaöflun meðal íbúa

myndin

Íbúafundur var haldinn í Skúlagarði 19. apríl 2008 þar sem safnað var upplýsingum um einkenni umhverfis og samfélags í dreifbýli og þau kortlögð í grófum dráttum. Sjónarmið varðandi ýmis skipulagsmál, s.s. frístundabyggð, minjavernd og skógrækt, voru einnig rædd og nokkrar hugmyndir settar á blað. Þessi efniviður mun nýtast vel við áframhaldandi vinnslu tillögunnar. Á næstu vikum verður landeigendum sent bréf þar sem þeim verður gefin kostur á að koma á framfæri upplýsingum og hugmyndum sem varða þeirra land eða sveitir almennt.

Ábendingar og hugmyndir velkomnar

Ráðgjafafyrirtækið Alta (http://www.alta.is/) hefur umsjón með skipulagsvinnunni í samráði við skipulags- og byggingarnefnd. Verkefnisstjóri er Matthildur Kr. Elmarsdóttir skipulagsfræðingur. Aðrir ráðgjafar Alta sem koma að verkefninu eru Sigmar Metúsalemsson, Hildur Kristjánsdóttir og Haukur Björnsson. Allar upplýsingar, ábendingar og hugmyndir sem varðað geta aðalskipulagið eru vel þegnar. Hafa má samband við Matthildi í síma 582 5000 eða senda tölvupóst til matthildur@alta.is.