Fara í efni

Áfallahjálp í Norðurþingi

Kæri íbúi Samráðshópur um áfallahjálp í Þingeyjarsýslu hefur að höfðu samráði við almannavarnir ákveðið að senda þetta bréf í kjölfar alvarlegra atburða í héraðinu. Tilgangurinn með bréfinu er að veita þér upplýsingar um viðbrögð eftir alvarlegt áfall og hvert þú getur leitað ef eigin úrræði duga þér ekki til að ná fyrra jafnvægi.

Eðlileg viðbrögð við alvarlegu áfalli. Snúum bökum saman

Atburður sem raskar öryggi þínu veldur mikilli streitu í líkamanum. Mikilvægt er að horfast í augu við líðan sína og hvenær ástæða er til þess að leita stuðnings hjá fagfólki.

Að finna fyrir geðshræringu fyrst eftir alvarlegt áfall ber vott um heilbrigði og þess vegna eru einkenni eins og hræðsla, reiði, grátur og hlátur eðlileg viðbrögð við streitu en sömuleiðis geta svefntruflanir, dofi og afneitun verið eðlilegur hlutur fyrstu dagana og vikurnar eftir áfallið.  Gott er að vita að eftir alvarleg áföll nægir flestum sú áfallahjálp og stuðningur sem nákomnir og vinir geta veitt. Tilfinningarnar geta þó borið þig ofurliði og það er alls ekki víst að fyrri reynsla og bjargráð dugi til að halda sjó. Einmitt þess vegna getur þú þurft á stuðningi og hvatningu fagfólks að halda. 

Forvörn felst í stuðningi og hvatningu                

Mikilvægt er að fyrirbyggja að sálrænn sársauki þróist yfir í þunglyndi og áfallaröskun sem eru vandmeðfarnir sjúkdómar. Þess vegna er nauðsynlegt að vita að ef streitueinkennin sem lýst er hér að ofan verða viðvarandi getur það bent til þess að þú þurfir á meiri stuðningi að halda en vinur eða ættingi getur veitt.

Heilsugæslan hefur á að skipa áfallateymi og hægt er að ná sambandi við fagfólk þess í síma 4640500. Starfsfólk heilsugæslunnar, prestar, sjálfboðaliðar Rauða kross Íslands og fagfólk hjá félagsþjónustunni er boðið og búið að veita þér aðstoð eftir þörfum. Hjálparsími Rauða krossins 1717 er einnig opinn allan sólarhringinn.

 

Samráðshópur um áfallahjálp á neyðartímum sími 8607740 (Sigríður Jónsdóttir):

Áslaug Halldórsdóttir, Díana Jónsdóttir, Helga Jónsdóttir, Ingibjörg Sigurjónsdóttir, Sighvatur Karlsson, Sigríður Jónsdóttir, Unnsteinn Ingason, Örnólfur J. Ólafsson