Afhending nýs íbúakjarna að Stóragarði 12 á Húsavík
Mánudaginn 6. desember afhenti verktaki, Trésmiðjan Rein ehf, nýjum eiganda, Vík hses, nýbyggðan íbúakjarna fyrir einstaklinga með sértækar þjónustuþarfir.
Í tilefni afhendingar hússins var boðað til hátíðar þar sem saman komu nýjir íbúar, aðstandendur, starfsfólk og kjörnir fulltrúar. Drífa Valdimarsdóttir, starfandi sveitarstjóri Norðurþings, gerði þar grein fyrir uppbyggingu hússins og tók við lyklavöldum úr hendi Sigmars Stefánssonar framkvæmdastjóra Trésmiðjunnar Reinar og byggingarstjóra hússins. Drífa afhenti svo Hróðnýju Lund félagsmálastjóra lyklavöldin sem aftur afhenti nýjum íbúum lykla að sínum íbúðum. Í kjarnanum eru sex íbúðir auk veglegra sameiginlegra rýma og starfsmannaaðstöðu. Alls er húsið 479 m² að flatarmáli. Húsið var hannað af Ragnari Hermannssyni byggingarfræðingi hjá Trésmiðjunni Rein. Uppbygging hússins hófst nú í vor. Húsið er nú því sem næst fullbúið en lokafrágangur lóðar bíður hinsvegar betri tíðar á komandi vori. Húsið er allt hið álitlegasta og ber þeim sem upp byggðu gott vitni. Nýjir íbúar voru að vonum ánægðir með sínar vistarverur og eru þegar farnir að koma sér fyrir.
Hugmyndir að byggingu íbúðakjarna fyrir fatlaða einstaklinga hafa verið á dagskrá hjá Norðurþingi í tæp fimm ár en erfitt reyndist að koma byggingunni fyrir innan þess ramma sem sveitarfélagið hafði til framkvæmda á árunum 2018-2019.
Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga haustið 2019 fjallaði Haraldur Líndal um byggingu íbúðakjarna í gegnum stofnun húsnæðissjálfseignarstofnunnar. Sá möguleiki var skoðaður og á vordögum ársins 2020 var stofnað félagið Vík hses. sem heldur utanum byggingu íbúðakjarnans og rekstur hans í samræmi vil lög um almennar íbúðir nr. 52/2016.
Bygging hússins var boðin út og í nóvember 2020 var undirritaður verksamningur við Trésmiðjuna Rein ehf.
Fjárhæð samkvæmt verksamningi var rétt rúmar 183 milljónir. Til viðbótar við þá fjárhæð féllu til gatnagerðargjöld og annar tilfallandi kostnaður upp á rúmar 12 milljónir.
Sótt var um stofnframlög til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar og fékk bygging úthlutað stofnframlögum að fjárhæð 49,4 milljónir frá HMS og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Auk þess var samþykkt lán hjá HMS til Víkur hses. að fjárhæð 111,5 milljónir. Framlag Norðurþings var áætlað í kringum 35 milljónir. Heildarbyggingarkostnaður hússins er því rétt tæpar 200 milljónir og hlutur Norðurþings í byggingarkostnaðinum mun verða á bilinu 35-40 milljónir, þegar búið er að útbúa húsið nauðsynlegum búnaði og öllum lokafrágangi er lokið.
Framkvæmdasvið Norðurþings hélt utanum verkið og Norðurþing sá um brúarfjármögnun þar til byggingunni var lokið.
Við óskum íbúum til hamingju með ný híbýli.
Gaukur Hjartarson tók meðfylgjandi myndir.