Áfram framkvæmt á Þeistareykjum
Einungis ein formleg umsókn hefur borist sveitarfélaginu Norðurþingi um lóð á Bakka. Landsvirkjun á í viðræðum við átta til tíu erlend fyrirtæki um möguleg orkukaup. Frekari jarðhitarannsóknir á Þeistareykjum í sumar eru liður í undirbúningi fyrir byggingu virkjunar á svæðinu.
Framkvæmdir á Þeistareykjum halda áfram í sumar. Vinna við nýjan veg frá Húsavík að háhitasvæðinu hefst
á næstu dögum og búið er að sækja um framkvæmdarleyfi fyrir byggingu 250 manna vinnubúða. Þá hefur
ráðgjafaþjónusta fyrirhugaðra virkjana í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum verið boðin út.
Á Þeistareykjum eru fimm tilvonandi vinnsluholur sem samanlagt skila ígildi 45 megavatta í rafmagnsframleiðslu. Stefnt er að því að bæta
tveimur rannsóknarborholum við í sumar, en hver rannsóknarborhola skilar um átta til níu megavöttum.
Fyrsti hluti Þeistareykjavirkjunar er áætlaður um 100 megavött. Þær borholur sem nú eru tilbúnar á svæðinu skila
því tæpum helmingi þeirrar raforku sem reiknað er með að framleiða í fyrsta hlutanum. Samtvinnuð raforkuframleiðslu er atvinnuuppbygging
á Bakka en sveitarfélagið Norðurþing hefur átt í viðræðum við ýmis fyrirtæki um lóð þar, en einungis ein
formleg umsókn hefur þó borist. Hún er frá þýsku kísilsmálmsverksmiðjunni PCC.
Bergur Elías Ágústssson, sveitarstjóri Norðurþings segir að næstu skref séu að gengið verði frá orkusölusamningum.
„Við munum að sjálfsöðgu reyna að sníða okkur gagnvart hans þörfum, þannig að við erum með í undirbúningi en
bíðum eftir því að niðurstaða liggji fyrir hverjir hingað koma,“ sagði Bergur Elías í viðtali við fréttastofu RÚV
í dag.
heimild: http://www.ruv.is/