Fara í efni

Aftur heim - þróunarverkefni í listum og menningu

Fleiri menningarverkefni, tækifæri fyrir unga listamenn með þingeyskar rætur, bætt búsetuskilyrði og öflugt tengslanet. Allt gætu þetta verið hugsanleg slagorð fyrir menningarverkefni í Þingeyjarsýslum sem nú er ýtt úr vör.

Eitt af hlutverkum Menningarráðs Eyþings er að stuðla að öflugu þróunarstarfi í menningarmálum. Verkefnið Aftur heim sem menningarráðið stendur að í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og Menningarmiðstöð Þingeyinga er dæmi um slíkt. Undirbúningur að verkefninu hefur staðið í nokkra mánuði og fer það nú af stað á fullum krafti.

Verkefnið nær yfir sex sveitarfélög á Norðausturlandi; Langanesbyggð, Norðurþing, Skútustaðahrepp, Svalbarðshrepp, Tjörneshrepp og Þingeyjarsveit, með sérstakri áherslu á jaðarsvæði.

Meginmarkmið verkefnisins er að virkja fólk á aldrinum 20-35 ára sem á rætur á umræddu svæði og stundar eða hefur lokið námi á sviði lista, menningar og skapandi greina til þess að taka þátt í eða standa að menningarverkefnum á svæðinu. 

Verkefnið samanstendur af þremur þáttum. Tveir þeirra miða að því að styrkja unga fólkið til að standa fyrir verkefnum í samfélagi sem þau ólust upp í eða eiga rætur í, annars vegar með ferðastyrkjum og hins vegar með verkefnastyrkjum. Þriðji þátturinn snýr að söfnun og miðlun upplýsinga um verkefnið og þátttakendur.  Sett verður  upp heimasíða þar sem upplýsingum um þátttakendur, einstök verkefni og framgang þeirra verður safnað og komið á framfæri. Þannig verður til gagnabanki til framtíðar, fyrir sveitarfélög og aðra aðila sem geta nýtt sér þekkingu og hæfni þátttakenda.

Í verkefnisstjórn Aftur heim sitja fulltrúar Menningarráðs Eyþings, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Menningarmiðstöðvar Þingeyinga.

Við hvetjum ykkur til að vekja athygli á verkefninu í ykkar sveitarfélögum svo að sem flestir fái tækifæri til þátttöku.

Fyrir hönd verkefnastjórnar,

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir menningarfulltrúi Eyþings.

Sif Jóhannesdóttir forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Þingeyinga

Ari Páll Pálsson verkefnastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.

 

Nánar um verkefnið

Skráningarform 

Nánri upplýsingar veitir menningarfulltrúi Eyþings í síma 464 9935 eða á netfangið menning@eything.is

Umsóknareyðublað og frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðum  Eyþings www.eything.is , Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga  www.atthing.is  og facebook síðu verkefnisins   https://www.facebook.com/pages/Aftur-heim/560697037297356?ref=hl