Ályktun frá Norðurþingi til Fjárlaganefndar Alþingis
Bæjarráð Norðurþings ályktaði eftirfarandi á fundi sínum í gær varðandi tillögur Fjárlaganefndar Alþingis til fjárlaga 2012
Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að Heilbrigðisstofnun Þingeyinga er gert að draga saman í rekstri sem nemur um 71,6 m.kr. eða um
8,5% á árinu 2012. Verði þetta að veruleika er ljóst að grípa þarf til uppsagna starfsmanna og endurskipulagningar á starfsemi
stofnunarinnar. Sá blákaldi veruleiki blasir við að haldi þessi stefna áfram verður sjúkrahússtarfsemi stofnunarinnar lögð af
með íþyngjandi kostnaði fyrir íbúa í Þingeyjarsýslum.
Fjárlagafrumvarpið felur í sér aðför að þeirri þjónustu sem starfrækt er í dag við stofnunina, sem í dag er skilgreind
sem lágmarksþjónusta. Heilbrigðisstofnun Þingeyinga hefur undanfarin ár dregið úr og hagrætt í rekstri sínum sem nemur 24%
með boðuðum viðbótarniðurskurði stefnir í að kostnaður verði lækkaður um tæp 33% á fjórum árum. Það
sem vekur ugg, gremju og reiði er að tillögur fjárlagafrumvarpsins fela í sér;
• Óafturkræfar aðgerðir með tilheyrandi þjónustuskerðingu
• Viðbótarkostnað fyrir íbúa Þingeyjarsýslna.
• Frumvarpið er þvert á viljayfirlýsingu milli ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna í
Þingeyjarsýslum um uppbyggingu atvinnulífs í sýslunum, sem undirrituð var 25. maí 2011. En þar stendur orðrétt; Aðilar eru
sammála um mikilvægi þess að staðinn verði vörður um opinbera þjónustu á svæðinu, sem nauðsynleg er þegar til
uppbyggingar kemur.
Bæjarráð harmar þau skilaboð sem ríkisstjórn Íslands sendir þegnum sínum í Þingeyjarsýslum og fer
fram á að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar komi til fundar við fulltrúa sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslum þannig að
hægt verði að fara yfir þá alvarlegu stöðu sem upp er kominn.