Arna Ásgeirsdóttir ráðin kennsluráðgjafi hjá Skólaþjónustu Norðurþings
Arna Ásgeirsdóttir hefur verið ráðin sem kennsluráðgjafi hjá Skólaþjónustu Norðurþings. Arna lauk B.Ed í leikskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 2008 og Diploma í sérkennslufræðum frá Háskólanum á Akureyri árið 2016. Hún stundar nú mastersnám í læsi og lestrarfræðum við Háskólann á Akureyri. Arna hefur starfað í skólum Norðurþings frá árinu 2004. Hún starfaði lengi á Leikskólanum Grænuvöllum, þar af í 8 ár sem deildarstjóri. Hún hóf störf við Borgarhólsskóla árið 2015, hefur verið umsjónarkennari þar, setið í innra mats teymi skólans og leitt innleiðingu Byrjendalæsis í sínu teymi. Hún tók sömuleiðis þátt í innleiðingu Jákvæðs Aga á Grænuvöllum. Arna hefur því viðtæka reynslu á báðum skólastigum sem mun nýtast henni vel í starfi.
Við bjóðum Örnu hjartanlega velkomna til starfa.