Ársskýrsla Slökkviliðs Norðurþings
Slökkvilið Norðurþings skilaði ársskýrsu sinni í byrjun árs og var hún tekin fyrir í byggðarráði 12. janúar sl. Skýrsluna má finna hér
Í lok síðasta árs var samþykkt að kaupa tvenn ný björgunartæki, klippur og glennur fyrir liðin á Kópaskeri og Raufarhöfn til björgunar á fastklemmdu fólki úr farartækjum og mannvirkjum. Nýi búnaðurinn er væntanlegur um miðjan janúar 2023 og leysir af hólmi 30 ára gamlan búnað sem fyrir var á stöðunum og var orðinn úreltur og varasamur í notkun. Með þessum kaupum hefur sveitarstjórn mætt flestum þeim athugasemdum sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar gerði haustið 2021 vegna aðbúnaðs slökkviliðsins á öllum starfsstöðvum liðsins en unnið var markvisst að því á síðasta ári að bæta úr þeim athugasemdum sem gerðar voru. 15 einstaklingar úr liðinu frá stöðvum liðsins á Kópaskeri og Raufarhöfn munu í ársbyrjun sækja námskeið III á vegum HMS í notkun á klippubúnaði. Þá munu vettvangsliðar á Kópaskeri og Raufarhöfn sækja endurmenntuna námskeið fyrir vettvangsliða um mánaðarmótin jan – feb.
Tekin var ákvörðun í april sl. að kaupa nýja dælubifreið fyrir slökkviliðið að undangengnu útboði Ríkiskaupa. Bifreiðin er af Scania gerð 500 hestöfl, fjórhjóladrifin og afar vel útbúin. Dælugeta bílsins er 4.000 ltr. á mínútu auk þess er ONE Seven 5500 froðukerfi í bílnum og kemur bifreiðin fullbúinn til landsins. Samið var við Ólaf Gíslason ehf sem átti lægsta tilboðið í samstarfi með WISS í Póllandi. Það fyrirtæki er eitt það stærsta sinnar tegundar í heiminum í smíði slökkvibifreiða og reiknað er með að nýr bíll verði kominn í notkun síðari hluta næsta árs ef allt gengur að óskum.
Rekstur liðsins undanfarin ár hefur gengið mjög vel tekist hefur að auka sértekjur og rekstrarniðurstaða síðustu ára hefur verið jákvæð. Á nýliðnu ári sinntu vettvangsliða hóparnir 43 verkefnum til aðstoðar við sjúkrabíla á svæðinu. Flest útköllin eru F1 og F2 þar sem um getur verið að ræða lífsógnandi aðstæður og mikill styrkur fyrir samfélögin norðan Húsavíkur að hafa vel þjálfaða einstaklinga sem geta brugðist fljótt við. Verkefnum allra deilda liðsins hefur fjölgað gríðarlega undanfarin ár. Árið 2018 var 131 verkefni sinnt af liðinu en árið 2022 voru verkefnin orðin 401 sem er aukning um 67,3%. Lögbundnu eldvarnareftirliti hefur verið sinnt af krafti undanfarin ár og allir skoðanaskildir staðir í sveitarfélaginu skoðaðir eins og skoðunaráætlun segir til um. Eldvarnareftirlit á starfssvæði liðsins er viðamikið og er um 85 – 90 % stöðugildi sem þarf til að sinna þeim verkþætti.
Æfingasvæði liðsins sem er eitt það besta á landinu hefur verið vel nýtt til æfinga enda bíður svæðið upp á möguleika á því að æfa alla þá þætti sem slökkvilið þurfa að æfa.
- Áhafnir varðskipa Landhelgisgæslunnar koma og æfa á svæðinu undir handleiðslu starfsmanna liðsins.
- HMS hefur nýtt svæðið til kennslu fyrir hlutastarfandi stjórnendur slökkviliða og fleiri námskeiða.
- Slökkvilið í umdæminu koma með sinn mannskap til æfinga á svæðinu.
Fastir dagvinnu starfsmenn liðsins eru alla daga ársins bundnir vöktum frá 08.00 – 16.00. Tveir starfsmenn eru á vakt sjúkrabíls samkvæmt samningi við HSN og þriðji starfsmaðurinn er á vakt slökkviliðs. Þess utan er alltaf stjórnandi á bakvakt slökkviliðs frá 16.00 – 08.00 alla virka daga og allan sólarhringinn um helgar. Einn starfsmaður er á bakvakt sjúkrabíls frá 16.00 – 08.00 alla virka daga og allan sólarhringinn um helgar. Á Kópaskeri og Raufarhöfn eru einnig launaðar stjórnendavaktir allan sólarhringinn allt árið hjá liðinu.