Ása Gísladóttir fagnar 50 ára starfsafmæli
Ása Gísladóttir náði þeim merka áfanga að eiga 50 ára starfsafmæli þann 2. janúar sl.
Ása er fædd á Húsavík 13. febrúar 1953 en ólst að mestu leyti upp í Skagafirði og bjó þar alla sína skólagöngu. Hún flutti aftur til Húsavíkur árið 1970 og hefur búið hér alla tíð síðan.
Það var í lok árs 1972 sem Ása sá auglýst starf á skrifstofu sveitarfélagsins og ákvað að sækja um. Hún fékk starfið og hóf störf þann 2. janúar 1973 þá tæplega 20 ára gömul.
Verkefnin á skrifstofu sveitarfélagsins hafa breyst í takt við tíð og tíma. Þegar Ása hóf störf voru 8 starfsmenn sem störfuðu í húsinu og snérust störfin að mestu um reikninga, innheimtu og greiðslur. Þá var mest notast við reikningshefti í tví eða þríriti, kúlupenna og reiknivél.
Einnig var unnið á rafmagnsritvélar og minnist Ása þess þegar fyrsta kúluritvélin kom, það hafi verið mikil framför. Nú er nánast allt unnið í tölvu og flest komið í stafrænt form sem hefur aldrei vafist fyrir Ásu.
Ása talar um að sér þyki rútínan góð, allt að því nauðsynleg. Aðspurð hvort hún sé vanaföst þá svarar hún því játandi, “svo er þetta líka bara leti” segir Ása og hlær. Starfið hefur hentar Ásu vel og hún nefnir að sér hafi liðið vel í vinnunni og því ekki hugsað það mjög alvarlega að skipta um starf.
”eflaust hugsaði maður það einhvern tíma að það væri gaman að prófa hin og þessi störf en ég hef það fínt hér”.
Ása starfar nú með sínum áttunda sveitarstjóra sem er Katrín Sigurjónsdóttir, áður starfaði Ása með Hauki Harðarsyni, Bjarna Aðalgeirssyni, Bjarna Þór Einarssyni, Einari Njálssyni, Reinhard Reynissyni, Bergi Elíasi Ágústssyni og Kristjáni Þór Magnússyni.
Ása talar um að félagsskapurinn sé það sem standi upp úr eftir öll þessi ár.“Það er ekki staðurinn sem slíkur sem gerir vinnustaðinn heldur er það fólkið. Það sem stendur uppúr eftir öll þessi 50 ár er allt það góða fólk sem ég hef starfað með hér”
Ása segist ekki vita hvað taki við þegar að því kemur að hætti að vinna en kvíðir því ekki heldur hlakkar til að skapa sér aðra og nýja rútínu.“Mér finnst ótrúlegt að það séu liðin 50 ár síðan ég labbaði hér inn á þessa skrifstofu. Tíminn líður og ég hef ekki hugsað mikið um það. En svo eru bara allt í einu komin 50 ár.” segir Ása.
Norðurþing þakkar Ásu fyrir sín góðu störf fyrir sveitarfélagið og íbúa þess í 50 ár. Það er hollusta og tryggð fólgin í svo löngu starfssambandi og fyrir það erum við þakklát.