Fara í efni

Bekkir brúkaðir í Norðurþingi

Í gær voru almennisbekkir þeir sem sjúkraþjálfararnir í bænum, í samvinnu við ýmis félög og fyrirtæki, komu fyrir víðsvegar um bæinn vígðir.

Í gær voru almennisbekkir þeir sem sjúkraþjálfararnir í bænum, í samvinnu við ýmis félög og fyrirtæki, komu fyrir víðsvegar um bæinn vígðir.

Vígslan fór fram við Miðhvamm og að henni lokinni var farið í gönguferð um nágrennið og bekkirnir brúkaðir en samfélagsverkefni þetta heitir einmitt „Að brúka bekki“.

Fram kom í máli sjúkraþjálfaranna við vígsluna að verkefnið hafi gengið mjög vel í Norðurþingi. Og reyndar einna best á landinu en þetta verkefni er þannig tilkomið að Félag íslenskra sjúkraþjálfara varð 70 ára í fyrra og af því tilefni ákváðu sjúkraþjálfarar að fara af stað með ýmis samfélagsverkefni til að hvetja til aukinnar hreyfingar almennings. Þetta var eitt þeirra og hér að neðan er bréf frá sjúkrþálfurunum okkar hér á Húsavík.

Að brúka bekki

Félag íslenskra sjúkraþjálfara varð 70 ára á árinu 2010 og af því tilefni ákváðu sjúkraþjálfarar að fara af stað með ýmis samfélagsverkefni til að hvetja til aukinnar hreyfingar almennings. Eitt af þeim var verkefnið „Að brúka bekki“, í samvinnu við félag eldri borgara. Verkefnið felur í sér fjölgun almenningsbekkja í bæjarfélögum landsins til hagsbóta og heilsueflingar fyrir íbúa. Markmiðið er að stuðla að því að eldri borgarar og þeir sem eru slakir til gangs eigi auðveldara með að fara út og hreyfa sig. Lagt er upp með að ekki sé of löng vegalengd á milli bekkja á ákveðnum gönguleiðum.

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þess að eldra fólk stundi hæfilega hreyfingu. Með því eykst heilsuhreysti fólks, það verður lengur sjálfbjarga og getur dvalið lengur heima. Einnig hafa tvær nýlegar íslenskar rannsóknir sýnt fram á að ein helsta hindrun þess að eldra fólk fari út í göngu sé skortur á bekkjum til að hvíla sig á. Útiganga er tilvalin heilsubót. Með því að auka aðgengi að bekkjum og hafa hæfilegt bil á milli þeirra eykst öryggi fólks og auðveldar fólki á öllum aldri að njóta útiveru og gönguferða.

Leitað var til einstaklinga, fyrirtækja og félagasamtaka í Norðurþingi og þau beðin um styrk til kaupa á bekkjum auk annarar aðstoðar við verkefnið. Undirtektir voru með eindæmum góðar og er gaman að segja frá því að ekki eru dæmi um annan eins stuðning við verkefnið í öðrum bæjarfélögum á landinu. Alls hafa 16 bekkir nú verið keyptir og þeim verið komið fyrir víðs vegar í sveitarfélaginu. Nokkrar ákveðnar gönguleiðir voru skipulagðar en eins var bekkjum komið fyrir á fjölförnum leiðum þar sem þörf þótti á. Einnig voru tveir bekkir sendir á Kópasker og Raufarhöfn en verkefnið er enn í gangi þar.

Fjölmargir aðilar hafa lagt verkefninu lið með öðrum hætti en beinum fjárframlögum s.s. með að gefa vinnuframlag sitt við einstaka þætti verkefnisins. Þannig sáu Landflutningar um flutning bekkjanna, Norðurþing sá um alla uppsetningu og munu gönguleiðirnar fá sérstaka athygli þegar kemur að snjóruðningi og hálkuvörnum á vegum sveitarfélagsins. Einar Kolbeinsson gaf skilti á bekkina auk vinnu við uppsetningu þeirra. Hver bekkur er merktur helstu styktaraðilunum. Einnig mun Einar Gíslason hjá Húsavíkurstofu útbúa göngukort sem birt verður í Skránni og á vef Norðurþings.

Við viljum þakka þeim fjölmörgu einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum sem að verkefninu komu fyrir frábærar undirtektir og mikla jákvæðni. Einng viljum við koma sérstökum þökkum til starfsstúlkna hjá Sjúkraþjálfun Húsavíkur fyrir ómælda vinnu við öflun styrkja. Öll fjárframlög, stór og smá, nýttust til fullnustu og má sjá lista yfir alla styrktaraðila hér að neðan. Við hvetjum bæjarbúa til að kynna sér staðsetningu bekkjanna og þær gönguleiðir sem hægt er að fara og láta takmarkaða göngugetu ekki hindra sig.

Sjúkraþjálfarar í Norðurþingi

(frétt af http://www.640.is/)

Styrktaraðilar verkefnisins "Að brúka bekki" í Norðurþingi