Bókun bæjarstjórnar Norðurþings varðandi Grímsstaði á Fjöllum
Bæjarstjórn Norðurþings samþykkti eftirfarandi bókun á fundi sínum í gær:
Mikil umræða hefur verið í fjölmiðlum undanfarið vegna áhuga Huang Nubo á þeim möguleikum sem felast í umhverfisvænni
ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum. Hvernig einstaka ráðherrar og þingmenn hafa tjáð sig um málið í fjölmiðlum
hefur vakið undrun bæjarstjórnar. Sú framkoma sem hefur viðgengist í þessu máli getur ekki talist til fyrirmyndar né stuðlað að
fjárfestingum erlendra aðila á Íslandi. Fjárfesting sem af flestum er talin nauðsynleg fyrir efnahagslífið og þar með eflingu atvinnustigs
í landinu. Bæjarstjórn vill með þessari bókun koma á framfæri nokkrum staðreyndum um málið.
• Jörðin Grímstaði á Fjöllum var um 420 km2 að stærð á sínum tíma.
• Hluti jarðarinnar var skilgreindur sem þjóðlenda og þá fór hún niður í um 300 km2.
• H. Nubo hefur skrifað undir samninga með fyrirvörum við hluta af landeigendum, þ.e. 72% af þessum 300 km2. Samningurinn er því fullkomlega
löglegur, en öðlast ekki gildi fyrr en stjórnvöld hafa veitt samþykki sitt.
• Íslenska ríkið á um 25% og aðrir sem ekki selja um 3%.
• Málið hefur átt sér nokkur aðdraganda og eftir umtalsverða vinnu tókst að fá H. Nubo hingað sem leist vel á
aðstæður og var tilbúinn að fjárfesta verulega í ferðaþjónusgeiranum.
• Landeigendur og sveitarfélagið Norðurþing eru mjög jákvæðir, þar sem áætlanir hans falla vel að stefnumálum
Norðurþings sem miða að því að efla ferðaþjónustuna enn frekar.
• Jörðin hefur verið til sölu í all langan tíma.
• H. Nubo mun afsala sér vatnsréttindum.
• H. Nubo hefur áhuga á að tengja saman þjóðgarðinn frá norðri til suðurs.
• H. Nubo vill taka virkan þátt í að efla innviði samfélagsins.
• H. Nubo vill koma að markaðsmálum fyrir svæðið.
• H. Nubo ríka áherslu á verndun náttúrunnar.
• H. Nubo leggur ríka áherslu á samvinnu við heimamenn, sem hann telur grundvallar forsendu þess að vel til takist.
• H. Nubo og íslenska ríkið verða að gera með sér sameignarsamning um uppbyggingu ferðaþjónustu og starfsemi á jörðinni
að öðru leyti.
• Fjárfesting í ferðaþjónustu af þessari stærðargráðu er gríðarleg innspýting í atvinnustarfsemi á
svæðinu og skiptir miklu í baráttu landsbyggðar í að auka fjölbreytni í möguleikum á störfum.
• Starfsemi H. Nubo verður rekin í íslensku hlutafélagi, sem starfar samkvæmt íslenskum lögum.
Bæjarstjórn Norðurþings hvetur innanríkisráðherra að veita samþykki sitt fyrir því að kaupin geti átt sér
stað, og enn fremur skorar bæjarstjórn á ráðherra að hann beiti sér fyrir því að landeigendur geri með sér
sameignarsamning um uppbyggingu og starfsemi á jörðinni, náttúrunni, svæðinu og þjóðinni til heilla.