Borinn Jötunn
Borinn Jötunn er kominn til Húsavíkur. Jötunn hefur verið við boranir á Azoreyjum og er nokkur fjöldi Húsvíkinga í áhöfn borsins. Borinn fer nú í það verkefni að bora 4 rannsóknarholur á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum, vegna álvers við Bakka. Eftir boranir sumarsins er reiknað með að búið verði að afla um 40% af þeirri gufu sem þarf vegna fyrri áfanga álvers við Bakka, en áætluð gangsetning þess er á miðju ári 2012.
Fyrsta rannsóknarhola ársins verður boruð í Sandabotnaskarði við Kröflu en boraðar verða 3 holur á Kröflu- / Bjarnarflagssvæði og ein hola á Þeistareykjum. Áætlaður rannsóknarkostnaður á þessum svæðum í ár er um 1 milljarður króna, sem er svipaður kostnaður og var á árinu 2006.
Rannsóknir á háhitasvæðinu á Þeistareykjum hafa staðið samfellt yfir frá árinu 1999. Orkuveita Húsavíkur á um þriðjungshlut í Þeistareykjum ehf. á móti Landsvirkjun, Norðurorku og sveitarfélögunum Þingeyjarsveit og Aðaldælahreppi.