Bréf til íbúa Húsavíkur frá LNS Saga
Jarðgangagerð í gegnum Húsavíkurhöfða.
Ágætu Húsvíkingar
Nú er undirbúningi fyrir jarðgangagerð í gegnum Húsavíkurhöfða að ljúka. Frá því um miðjan október hafa starfsmenn LNS Saga unnið við að hreinsa frá gangamunnanum að sunnanverðu til þess að hægt sé að hefja borun og sprengingar. Í lok febrúar kom skipið Winter Bay tvisvar til Húsavíkur með sérhæfðan gangabúnað frá Færeyjum þar sem gangagengi frá LNS í Noregi var að ljúka verki. Þessi vika fer í að standsetja búnaðinn og í næstu viku er ætlunin að byrja að sprengja.
Fjöldi sprenginga dag hvern ræðst af gæðum bergsins og þeirri vinnu sem þarf að framkvæma við bergstyrkingar hverju sinni. Ætla má að íbúar verði varir við hávaða frá fyrstu sprengingum en ónæðið minnkar og verður hverfandi þegar lengra verður komið inn í göngin. Hinir reynslumiklu gangagerðarmenn frá Noregi telja ennfremur ólíklegt að bæjarbúar finni fyrir titringi frá sprengingum þar sem næstu íbúðarhús við göngin eru í umtalsverðri fjarlægð. Að sögn Norðmannanna sváfu allir vært í Færeyjum þótt sprengt væri fyrir göngum í innan við 10 metra fjarlægð frá íbúðarhúsum. Í sannleika sagt vonum við að óþægindin af gangagerðinni verði lítil sem engin.
Efni úr Höfðanum hefur verið notað í fyllingar á athafnasvæðinu við Bökugarð auk þess sem fylla þarf undir veg og brimvörn frá Bökugarði að gangamunna. Hluti efnisins hefur farið í sjóvörn neðan við sláturhúsið og fyllingar sunnan við GPG og innan við Norðurgarð. Efnið úr göngunum mun að mestu fara í Norðurgarðsfyllinguna.
Norðan við Húsavíkurhöfða er unnið að vegagerð frá norðurmunna ganganna að iðnaðarsvæðinu á Bakka. Samhliða þessu hefur verið lagður vegur að Skurðsbrúnanámu þar sem vinna á grjót í brimvörn. Með hjálp heimamanna hafa ennfremur verið reistar vinnubúðir, mötuneyti og skrifstofur á Höfðanum.
Við vonumst til þess að þetta upplýsi nokkuð um stöðuna á þessu verkefni sem framkvæmt er af körlum og kerlingum í skærgulum úlpum í miðjum bænum ykkar. Við hlökkum til áframhaldandi farsæls samstarfs við heimamenn, bæði í verkinu, heita pottinum og á skíðagöngubrautinni. (Þrátt fyrir mikla hvatningu höfum við ekki enn þorað að láta sjá okkur á blakæfingum.)
F.h. LNS Saga í Bakkavegi,
Sturla Fanndal Birkisson