Byggðasafnið tilnefnt til safnaverðlaunanna í ár
Byggðarsafn Suður-Þingeyinga er eitt þriggja safna sem tilnefnd eru til Safnaverðlaunanna 2012. Hin eru Listasafn Einars Jónssonar og Rannsókna og varðveislusvið Þjóðminjasafns Íslands.
Byggðasafn Suður-Þingeyinga er tilnefnt fyrir endurnýjun á grunnsýningu í Safnahúsinu á Húsavík, Listasafn Einars Jónssonar fyrir innihaldsríka heimasíðu, vel tengda hlutverki safnsins og markmiðum og Rannsókna- og varðveislusvið Þjóðminjasafnsins fyrir Handbók um varðveislu safnkosts.
Safnaverðlaunin eru veitt annað hvert ár safni sem þykir hafa skarað fram úr eða hafa á eftirtektarverðan hátt unnið úr þeim áskorunum sem söfn standa frammi fyrir.
Íslandsdeild ICOM (Alþjóðarás safna) og Félag íslenskra safna og safnamanna standa saman að verðlaununum. Þau verða nú veitt í áttunda sinn en síðast fékk Nýlistasafnið í Reykjavík viðurkenninguna.
Verðlaunin verða veitt á Bessastöðum á íslenska safnadaginn, sem í ár verður þann 8. júlí. Alþjóðlegi safnadagurinn er hins vegar haldinn 18. maí.
Heimild: ruv.is