COVID-19: Opnunartími stjórnsýsluhússins á Húsavík
Í ljósi neyðarstigs almannavarna vegna COVID-19 mun eftirfarandi gilda um stjórnsýsluhúsið á Húsavík frá og með 25. mars:
- Opnunartími verður óbreyttur eða frá 09:00-15:00 fyrir almenna móttöku
- Umgangur um húsið verður þó lágmarkaður, bæði af gestum og starfsfólki
- Við munum ekki hleypa utanaðkomandi inn í húsið nema í algjörum undantekningartilfellum en hægt verður að koma í móttökuna ef þess þarf. Starfsfólk mun eftir aðstæðum vinna sem mest heima fyrir, mismunandi þó eftir sviðum.
- Grímuskylda er fyrir þá sem koma inn í húsið - gildir fyrir móttöku sem og inn á skrifstofur.
Viljum við biðja þá sem eiga erindi við okkur að hringja fyrst í síma 464 6100 og/eða senda tölvupóst á viðkomandi starfsmann (sjá netfangalista starfsfólks) og reyna að afgreiða erindi með þeim hætti áður en kemur til þess að mæta til okkar í afgreiðsluna.
Frá 09:00 -15:00 er hægt að hringja 464 - 6100 hægt er að senda tölvupóst á netfangið nordurthing@nordurthing.is
Þetta er gert til að lágmarka smithættu starfsfólks, þjónustuþega og skjólstæðinga og höfðum við til samfélagslegrar ábyrgðar hvers og eins í þeirri stöðu sem komin er upp í samfélaginu.
Íþróttamannvirki á vegum Norðurþings eru lokuð frá og með 25. mars.
Helstu reglur sem tóku gildi á miðnætti:
*information in different languages can be find on www.covid.is
Nándarregla verður áfram 2 metrar og reglur um grímuskyldu óbreyttar. Sem fyrr verða börn fædd 2005 og síðar undanþegin grímuskyldu en falla undir fjölda- og nálægðartakmarkanir. Börn í leikskólum eru undanþegin 2 metra reglunni og fjöldatakmörkunum.
- Almennar fjöldatakmarkanir 10 manns og ná til allra sem fæddir eru 2014 eða fyrr.
- Sund- og baðstaðir lokaðir.
- Íþróttir inni og úti, jafnt barna og fullorðinna, sem krefjast meiri nálægðar en 2 metra eða þar sem hætta er á snertismiti vegna sameiginlegs búnaðar, eru óheimilar.
- Skólastarf í grunnskólum fellur niður.
- Trú- og lífsskoðunarfélög mega taka á móti 30 gestum við athafnir. Þeir skulu skráðir með nafni, kennitölu og símanúmeri en þurfa ekki að sitja í númeruðum sætum. Gestum er skylt að nota andlitsgrímur og tryggja skal 2 metra regluna. Hámarksfjöldi í erfidrykkjum, fermingarveislum og sambærilegum viðburðum er 10 manns.
- Heilsu- og líkamsræktarstöðvar lokaðar.
- Sviðslistir og sambærileg starfsemi, svo sem bíó, er óheimil.
- Skemmtistaðir, krár, spilasalir og spilakassar lokaðir.
- Ökunám og flugnám með kennara óheimilt.
- Veitingastaðir mega hafa opið til kl. 22, með að hámarki 20 gesti í rými sem allir skulu skráðir og fá afgreiðslu í sæti sem eru númeruð. Vínveitingar skal bera til sitjandi viðskiptavina. Heimilt er að taka á móti nýjum gestum til kl. 21.00.
- Verslanir mega taka á móti 5 einstaklingum á hverja 10 m2 að hámarki 50 manns. 20 starfsmenn mega vera í sama rými og viðskiptavinir. Tveggja metra nándarregla og grímuskylda.
- Starfsemi hársnyrtistofa, snyrtistofa og sambærileg starfsemi verður áfram heimil.