Covidpistill sveitarstjóra #9
Í dag hafa verið staðfest 33 smit á Norðurlandi eystra, flest þeirra á Akureyri eða 25 talsins, fimm í Mývatnssveit, eitt á Siglufirði og eitt á Grenivík. Enn er aðeins eitt staðfest smit með lögheimili í Norðurþingi. Við fögnum því að pestin sé ekki frekari útbreiðslu hér enn sem komið er. Upplýst var um það á stöðufundi almannavarna í dag að ákvörðun hefði verið tekin um að veita upplýsingar um þróun smita niður á póstnúmer, sem að mínum dómi er skynsamleg ákvörðun. Um það hafði verið rætt að persónuverndarsjónarmið kæmu í veg fyrir að sóttvarnarlæknir gæti ráðlagt slíka upplýsingagjöf, sem þýddi að sá er þetta ritar var á hálum ís með að upplýsa um stöðuna með þeim hætti sem ég hef leyft mér i þessum pistlum. Það er gott að fyrrnefnd afstaða almannavarna og sóttvarnalæknis liggi nú fyrir, en nánari útlistun á stöðunni má finna inni á Facebook síðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra sem ég hvet ykkur til að „líka við“.
Staðan er í sjálfu sér óbreytt hér hjá okkur frá í gær. Skólarnir og starfsemi sveitarfélagsins gengur nokkurn vegin skv. áætlun þótt ég sé farinn að greina örlitla þreytu á aðstæðunum innan sumra hópa. Annað er óeðlilegt í sjálfu sér, enda starfið hjá mörgum mjög krefjandi og ekkert eins og það var fyrir svo skömmu síðan. Áfram verðum við þó að arka á þessari braut um sinn, enda sóttvarnarlæknir búinn að lengja í samkomubanninu út apríl mánuð. Þið eruð að standa ykkur mjög vel og saman munum við fagna endalokum þessa faraldurs þótt biðin reynist okkur lengri en vonir stóðu til.
Að lokum í dag er rétt að taka undir orð þeirra Þórólfs, Víðis og Ölmu varðandi ferðalögin um páskana. Sleppum þeim bara! Fórnarkostnaðurinn gæti reynst okkur alltof mikill, leiði ferðir okkar yfir hátíðina til aukins álags á heilbrigðiskerfið. Starfsfólkið þar á það ekki skilið. Bara alls ekki. Njótum enn betur ferðalagsins úr svefnherberginu fram í stofu í þetta sinn. Svo skulum við líka njóta útiverunnar með okkar nánasta fólki í bænum, sveitinni eða hvar sem þið eruð. Það er nefnilega bjargföst trú mín að þessum snjóbyl, ófærð og vetri muni á endanum slota. „Bjartsýni er skylda“, sagði góður maður.
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri