Deiliskipulag lóðarinnar Útgarðs 4
Sveitarstjórn Norðurþings samþykkti á fundi sínum þann 18. desember síðastliðinn tillögu skipulags- og byggingarnefndar að deiliskipulagi lóðarinnar Útgarðs 4 á Húsavík. Skipulagstillagan var kynnt til samræmis við ákvæði skipulags- og byggingarlaga í október og nóvember s.l. Athugasemdir bárust frá einum aðila en skipulags- og byggingarnefnd lagði til við sveitarstjórn að tillagan sem kynnt var yrði samþykkt óbreytt sem deiliskipulag.
Deiliskipulagið nær til 3.800 m² svæðis milli Útgarðs og Pálsgarðs, þ.e. austurhelmings grassvæðis sunnan sýsluskrifstofu. Þar er fyrirhugað að byggja fjölbýlishús fyrir eldri borgara. Lóðin verður þéttbyggð og felast nýmæli helst í að gert er ráð fyrir umfangsmiklum bílakjallara undir húsum og heimilaðar verða allt að fimm hæða byggingar.