Drög að umhverfis- og loftslagsstefnu Norðurþings
Ágætu íbúar Norðurþings.
Drög að fyrstu umhverfis- og loftslagsstefnu Norðurþings hafa nú litið dagsins ljós. Vinna við gerð hennar hefur staðið yfir síðan haustið 2023. Íbúum er hér með boðið að kynna sér og gera athugasemdir við stefnuna. Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 12. desember nk.
„Mjór er mikils vísir“ segir máltækið og á það við um þessi drög. Engu að síður eru stigin stór skref með vinnu stefnunnar í átt að verndun umhverfis og aðgerðum í loftslagsmálum í Norðurþingi.
Á 197. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs 24.09.2024, var eftirfarandi bókað: Skipulags- og framkvæmdaráð felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að kynna drög að umhverfis- og loftlagsstefnu á vefsíðu sveitarfélagsins og leita umsagna hjá fjölskylduráði, ungmennaráði, hverfisráðum og byggðarráði, ásamt því að setja hana í íbúasamráð á Betra Ísland.
Það er von undirritaðs að íbúar jafnt sem stjórnendur fyrirtækja og stofnana í Norðurþingi kynni sér umhverfis- og loftslagsstefnuna og geri við hana athugasemdir á þessu stigi. Einnig hafi þeir stefnuna að leiðarljósi í framtíðinni þegar teknar verða ákvarðanir sem hafa áhrif á umhverfi okkar og samfélagið í heild. Með tímanum verður stefnan uppfærð og mun vafalaust taka breytingum á komandi árum. Sveitarstjórn Norðurþings afgreiðir endanlega umhverfis- og loftslagsstefnu og ber ábyrgð á að fylgja henni eftir. Stefnan gildir til 2034, en hún verður yfirfarin árlega og metið hvernig hefur gengið að fylgja henni eftir. Þá verður stefnan endurskoðuð eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar, sem verða næst vorið 2026, og þá tekin ákvörðun af nýrri sveitarstjórn hvort þörf sé á frekari endurskoðun.
Í þessum drögum að umhverfis- og loftslagsáætlun er mörkuð stefna í eftirfarandi málaflokkum: Samfélag, náttúra og auðlindir, innviðir og loftslag.
Í umfjöllun um hvern málaflokk er stutt almenn umfjöllun ásamt markmiðum. Loftslagsbreytingar koma við sögu í öllum viðfangsefnum stefnunnar auk sérstakrar umfjöllunar um viðbrögð og aðlögun vegna loftslagsbreytinga. Sett er fram sérstök aðgerðaráætlun með leiðum að markmiðum og aðgerðum, ásamt tengslum við aðrar áætlanir, tímasetningu aðgerða og ábyrgðaraðila þeirra.
Í umhverfis- og loftslagsáætlun Norðurþings segir að leiðarljós sveitarfélagsins í umhverfis- og loftslagsmálum sé að vinna markvisst að aukinni sjálfbærni sveitarfélagsins. Gengið verði með ábyrgum hætti um auðlindir og umhverfi og sveitarfélagið leggi sitt af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og bregðast við afleiðingum loftslagsbreytinga. Allar ákvarðanir, smáar sem stórar, skulu teknar með tilliti til umhverfis og loftslags. Þannig verði Norðurþing aðlaðandi búsetukostur og áfangastaður með heilbrigðu atvinnulífi.
Hér má kynna sér drög að umhverfis- og loftslagsstefnu Norðurþings.
Hér má senda inn athugasemdir við stefnuna. Nota þarf rafræn skilríki.
Elvar Árni Lund
Sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs